Scroll To

Íslenskur fiskur í handhægum umbúðum

Markmið eigenda Blámars um að setja íslenskan fisk í fallegar umbúðir og gera hann aðgengilegri og girnilegri kost í verslunum virðist hafa skilað sér til neytenda jafnt hérlendis sem erlendis. HB Grandi keypti fyrirtækið af Valdísi Fjölnisdóttur og Pálma Jónssyni fyrir stuttu en þau höfðu tekið rekstur fyrirtækisins til gagngerrar endurskipulagningar frá því að þau keyptu það árið 2015. Pálmi hefur nú leitað á ný mið en Valdís heldur uppgangi Blámars áfram í eigu HB Granda.

„Við byrjuðum á að hanna skin-pack umbúðir með það að markmiði að selja fiskinn beint í verslanir í handhægum umbúðum. Fljótlega komumst við með vörurnar inn í Hagkaup og þreifuðum fyrir okkur bæði á umbúðum sem og tegundum ásamt samspili þess á milli. Eftir um það bil árs þróunarvinnu hér heima vorum við komin með ágætis hugmyndir um hvað var að virka best og þá fórum við að horfa á erlenda markaði. Við gerðum samning við stóra verslunarkeðju í Hong Kong og síðan við COOP í Danmörku. Markmið okkar var fyrst og fremst að setja fisk í fallegar umbúðir sem okkur fannst vanta á markaðinn til að ýta undir meiri fiskneyslu. Einnig var það alltaf hugmynd hjá okkur að selja beint inn til verslana erlendis og sleppa þá þeim mörgu milliliðum sem vilja vera í útflutningi á matvöru. Þannig náðum við aukinni verðmætasköpun til okkar sem annars hefði farið til þriðja aðila og út úr landinu,“ útskýrir Valdís sem segir mjög ánægjulegt hversu vel vörunni hefur verið tekið fyrir utan landssteinana.