Íslenskur mjólkurlíkjör senn í verslanir
Nú styttist í að fyrsti íslenski mjólkurlíkjörinn, Jökla, komi á markað en stefnt er á að koma honum í verslanir um mitt næsta ár. Mjólkurtæknifræðingurinn Pétur Pétursson er hugmyndasmiðurinn að drykknum sem hann hefur þróað í tíu ár en þetta er í fyrsta sinn hérlendis sem framleiddur er áfengur drykkur úr íslenskri mjólk og mysa nýtt við gerð líkjörs.
„Núna er ég í því ferli með drykkinn að koma honum í stóra prófun með alvöru græjum, það er fitusprengjara og fleiru. Síðan fer Jökla í greiningu til Matís strax á eftir og nú er ég að leita að fallegum flöskum til að hafa Jöklu í en ég stefni á að koma drykknum til neytenda um mitt næsta ár,“ segir Pétur Pétursson sem byrjaði að þróa drykkinn fyrir tíu árum þegar hann gerði tilraunir með rjóma, vanillukorn og sítrónu.
Sporna gegn sóun matvæla
Pétri langaði að nota íslenska mjólk sem er mjög sérstök að hans mati því hún kemur frá einu elsta og fallegasta kúakyni í heimi.
„Ég hef prófað ýmis efni og aðferðir til framleiðslunnar og það hefur komið mér á óvart hvað þetta hefur tekið langan tíma. Ég hóf markvisst ferli fyrir fimm árum að þróa Jöklu og koma henni á markað en síðan var það í fyrra sem fyrsta blandan stenst aðskiljunarpróf og geymsluþol. Sú rannsókn var framkvæmd af erlendri rannsóknarstofu og lofaði góðu,“ útskýrir Pétur og segir jafnframt:
„Ég hef verið mjög opinn með þróun á líkjörnum, það er að segja, leyft fólki að smakka og segja sínar skoðanir. Það hefur reynst mér vel í gegnum árin. Verkefnið mun einnig nýta alkóhól sem unnið er úr mysu en þar er verið að sporna gegn sóun matvæla og minnka umhverfismengun til að ná fram aukinni verðmætasköpun.“