Scroll To

Krakkar kokka!

Krakkar kokka er verkefni sem leggur áherslu á að fræða íslensk grunnskólabörn um íslenskar matarhefðir og uppruna matvæla á skemmtilegan hátt, þar sem börnin velta m.a. fyrir sér hvað þau myndu borða ef engin verslun væri nálæg!

Krakkar kokka er umgjörð að fræðslu um matarmenningu, nærsamfélagsneyslu, matarsóun og sjálfbærni sem allir grunnskólar geta nýtt sér og aðlagað að eigin námsskrá. Í þessari fyrstu prufukeyrslu í grunnskólum í Skagafirði fóru börnin  í vettvangsheimsóknir til bænda og annarra frumframleiðanda og heimsóttu m.a. bleikjueldi  í nærumhverfi, elduðu síðan bleikju og borðuðu. Þannig fengu þau tilfinningu fyrir uppruna máltíðarinnar.

Áhersla var lögð á að kynna börnum heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt auðlindum og matarhefðum svæðisins og þau hvött til að huga að matarsóun og betri nýtingu matvæla. Reynt var að ýta undir hugmyndaauðgi og m.a. sýnd lóðrétt matjurtaræktun í dönskum skóla sem er hugvit Ikea Space10 Future Living Lab. Hægt er að nálgast skapalónið hér . Það væri frábært verkefni fyrir grunnskóla að sameina smíðakennslu og matargerð í skólum með lóðréttri matjurtaræktun og um leið spara pening til matarinnkaupa og tryggja aðgengi að ferskum matjurtum. Börnin gerðu ennfremur myndband um reynsluna sem gerir upplifunina skemmtilegri og í sumum skólum má eflaust samnýta áfanga í myndbandagerð og heimilisfræði.

Verkefnið var stýrt af Rakel Halldórsdóttur hjá Matís, en Matarauður Íslands bæði styrkti verkefnið og lagði til ýmsan fróðleik ásamt Sveini Kjartanssyni og Hinriki Carli Ellertssyni matreiðslumeisturum. Sveitafélag Skagafjarðar og kennarar og börn í Grunnskóla austan vatna og Varmahlíðarskóla sem tóku þátt eiga lof skilið fyrir sína þátttöku. Þess skal getið að  svipað verkefni hefur verið í gangi í Norðlingaskóla í Reykjavík og Laugarnesskólinn í Reykjavík hefur ennfremur nýtt sér aðferðafræðina. Stefnt er að því að senda bækling um verkefnið á alla grunnskóla landsins.

Í framhaldi af þessu verkefni hafa kviknað hugmyndir um útfærslu á lóðréttri matvælaræktun í grunnskóla í samstarfi við Landbúnaðarháskólann og Matís hefur tengt verkefnið við Evrópuverkefni WeValueFood sem er styrkt af EIT Food. Í gegnum það verkefni hafa Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið HÍ og Sævar Helgi Bragason stjörnukönnuður og þáttastjórnandi (Krakkafréttir ofl.) komið að verkefninu og eru mjög áhugasöm um að miðla því áfram og koma því í framkvæmd innan skólanna og munu beita sér fyrir því.

 

Kynnið ykkur verkefnið Krakkar kokka og smellið hér 

Hér má nálgast upplýsingar af síðu Matís