Scroll To

Kynnir land og þjóð í gegnum mat og matarhefðir

Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, leiðsögumaður og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins crisscross sérhæfir sig í matarferðamennsku þar sem ferðamenn geta valið um að hitta frumframleiðendur og læra íslenska skyr- og ostagerð svo fátt eitt sé nefnt. Umsvif fyrirtækisins hafa aukist jafnt og þétt en Sigríður Anna vinnur einnig sem leiðsögumaður í almennum ferðum hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

„Í okkar ferðum bjóðum við upp á íslenskt matarhandverk, bæði frá þeim framleiðendum sem við heimsækjum sem og öðrum sem nota hráefni úr íslenskri náttúru, mat sem er bragðgóður og hefur sögu að segja. Við reynum að tengja matarupplifunina við frásagnir af fólki og staðarháttum og hvernig aðstæður og umhverfi hefur haft áhrif á matarvenjur Íslendinga í gegnum tíðina. Fólk hefur mikla ánægju af því að borða mat sem hefur bein tengsl við þá staði sem við heimsækjum,“ útskýrir Sigríður Anna og segir jafnframt: „Flestir sem koma til mín eru frá Bandaríkjunum enda er matarferðamennska vel þekkt þar í landi. Þar fyrir utan hefur fólk alls staðar að úr heiminum verið í ferðum með okkur, Ástralíu, Kanada, Singapore, Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi svo eitthvað sé nefnt. Aðaláherslan í ferðunum er persónuleg upplifun, hitta bændur og heyra sögur úr þeirra lífi, heyra um uppruna matarins, hvernig hann er verkaður og svo framvegis ásamt að sjálfsögðu því að smakka íslenskan mat. Við leggjum áherslu á að heimsækja framleiðendur sem vinna með sjálfbærni að leiðarljósi og ferðumst í litlum hópum í anda slow travel.“

Þess má geta að Sigríður Anna er lífefnafræðingur og umhverfisfræðingur að mennt og vann við rannsóknir í hollenskum háskóla til ársins 2010. Einnig stofnaði hún fyrirtækið Kruss árið 2013, sem framleiðir vörur úr mysu undir vörumerkinu Íslandus: mysudrykk með íslenskum berjum og jurtum og mysukex með fjallagrösum og fræjum en hún seldi fyrirtækið nýverið til ábúenda á Rjómabúinu að Erpsstöðum í Dölum.