Scroll To

Velja íslenskt úr nærumhverfinu

Hjónin Sigríður Helga Karlsdóttir og Guðjón Birgisson á Melum á Flúðum eiga og reka sveitaverslunina Litlu Melabúðina í gróðurhúsi hjá sér. Allt grænmeti sem selt er í búðinni kemur frá þeim en til dæmis kjötmeti, egg, flatkökur, sultur og heimagert konfekt kaupa þau af framleiðendum af svæðinu.

„Við byrjuðum fyrir nokkrum árum með sjálfsafgreiðslu hér í litlu gróðurhúsi við Mela, en stækkuðum síðan og byrjuðum með Litlu Melabúðina 1. júní árið 2017 og þá gátum við tekið inn vörur frá öðrum. Þá byrjuðum við að selja holdanautakjöt Kjöts frá Koti sem er hér í sveit. Þau eru með mikið úrval af gæðasteikum ásamt hakki, hamborgurum og gúllasi svo ég tali nú ekki um hrossabjúgun þeirra, fólk kemur langar leiðir til að næla sér í þau. Einnig eru þau með tryppakjöt og lambakjöt sem fæst hjá okkur,“ útskýrir Sigríður Helga.

Broddur, egg og heimagert konfekt
Litla Melabúðin er opin alla daga allt árið um kring. Á sumrin er mikið að gera og margir koma við til að versla svæðisbundnar matvörur.
„Allt grænmeti sem við seljum hér er ræktað af okkur en við höfum reyndar selt gulrætur og kartöflur frá öðrum þegar við eigum ekki vöruna. Það er mikið úrval af tegundum á boðstólnum, tómatar, gúrkur, paprika, margskonar tegundir af kryddplöntum og salati, gulrætur, kartöflur, rófur, hvítkál,og þær tegundir sem eru áræktaðar á sumrin eins og til dæmis blómkál, spergilkál, kínakál og svo mætti lengi telja,“ segir Sigríður Helga og bætir við:
„Við leggjum metnað í að selja vörur úr okkar nærumhverfi og erum nýfarin að selja frá Korngrís í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þar mætti nefna beikon, skinku, pepperóní, beikonpylsu og margskonar steikur. Hjá okkur fæst líka broddur, egg, sveppir, jarðarber, flatkökur, margskonar sultur og heimagert konfekt. Í sumar voru svo ýmsar vörur í boði frá Stínu kokk eins og við köllum hana eins og brauð, kökur og allskyns sósur og gúmmelaði í krukkum sem var mjög vinsælt. Það þykir stór kostur að fá öll þessi góðu íslensku matvæli á einum stað og leggjum við metnað okkar í að gera þetta vel. Við erum líka með bókahorn sem er mjög vinsælt. Þar getur fólk fengið gefins bækur án þess að þurfa að koma með aðra í staðinn og er fólk duglegt að koma með bækur í hornið.“