Scroll To

Opinber innkaup á matvælum

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að setja á fót starfshóp um innkaupastefnu opinberra aðila á sviði matvæla. Verkefnið verður unnið á vettvangi Matarauðs Íslands í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Hlutverk starfshópsins er að móta stefnu um opinber innkaup til að tryggja neytendum matvæli úr heilnæmum afurðum með tilliti til framleiðsluhátta og umhverfisáhrifa. Stefnan taki m.a. mið af því að opinber innkaup matvæla stuðli m.a. að lágmörkun  sótspors við framleiðslu og flutning. Starfshópnum er falið að móta tillögur að hvötum sem styðja við innkaupastefnuna. Tillögur hópsins þurfa enn fremur að tryggja að neytendur hafi aðgang að upplýsingum um uppruna matvæla og að stefnan uppfylli lýðheilsumarkmið um næringu.

Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með kaupmætti sínum og eftirspurn getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, heilnæma máltíð.

Ný lög um opinber innkaup tóku gildi haustið 2016 en þau taka mið af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um innkaup opinberra aðila á vörum, verkum og þjónustu. Í greinargerð við lögin kemur fram að í þeim sé lögð enn frekari áhersla á „vistvæn“ innkaup en var í eldri lögum. Birtist það fyrst og fremst í því að verð er ekki lengur meginforsenda við innkaup heldur er mögulegt að horfa í auknum mæli til gæða, umhverfisverndar, félagslegra markmiða og nýsköpunar. Um leið er áhersla lögð á vistferilskostnað þess sem keypt er.

Í starfshópnum eiga sæti: Brynja Laxdal hjá Matarauði Íslands, skipuð formaður án tilnefningar, Halldóra Hjörleifsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,, Björgvin Valdimarsson, tilnefndur af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Kjartan Dige Baldursson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Hólmfríður Þorgeirsdóttir, tilnefnd af velferðarráðuneytinu.

Áætlað er að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en 1. mars 2019 og skili þá tillögu að opinberri innkaupastefnu til ráðherra.