REKO, algengar spurningar og svör fyrir framleiðendur
Matarauður Íslands hefur tekið saman algengar spurningar og svör fyrir framleiðendur sem hyggja á milliliðalaus viðskipti innan Facebook hópa REKO
1. Hverjir mega vera með?
Allir geta selt sínar matvörur í gegnum REKO svo framarlega sem farið er að lögum um matvæli sem taka til framleiðslu og dreifingar matvæla (Lög nr. 93/1995). Seljandi ber ábyrgð á öryggi og gæðum sinna matvæla frá framleiðslu til afhendingar. Mikilvægt er að kynna sér hvaða leyfi þú þarft.
Grundvallarreglan er sú að sérhvert fyrirtæki eða rekstraraðili – sem hefur með höndum starfsemi þar sem framleiðsla, vinnsla eða dreifing á sér stað – telst vera matvælafyrirtæki og er ábyrgt fyrir öryggi þeirra matvæla sem það dreifir. Þetta gildir um öll fyrirtæki, hvort sem þau eru undir eða yfir smáræðismörkunum. Á vef Matvælastofnunar má finna helstu upplýsingar um matvælalöggjöfina.
2. Hvaða leyfi þarf ég ef ég vil selja afurðir innan REKO?
Það fer eftir því hver starfsemin er
- Ef búfjárhald er meginstarfsemi aðila sem framleiða og selja matvæli beint frá býli er sótt um starfsleyfi hjá Matvælastofnun
- Ef búfjárhald er ekki meginstarfsemi er sótt um starfsleyfi hjá heilbrigðiseftirliti í héraði.
- Ef þú ert með litla matvælastarfsemi og ert að selja hefðbundin matvæli þar sem framleiðsla fer ekki yfir ákveðin viðmið fellur þú undir reglugerð um lítil matvælafyrirtæki (nr. 856/2016). Í henni er meiri sveigjanleiki fyrir litlar vinnslur, t.d. þar sem unnið er úr jurtaríkinu eins og hunang, úr dýraafurðum, litlar mjólkurvinnslur, slægðan fisk, samsett matvæli, lítil sláturhús, lítil reykhús og fleira.
Skráningarskylda, en ekki þörf á úttekt
Ef þú geymir og dreifir eigin kjöti beint úr sláturhúsi eða beint frá býli. Ef kjöt er geymt í sláturhúsi eða viðurkenndri frystigeymslu þarf ekki að gera úttekt hjá seljanda, en nauðsynlegt er að skrá býlið/bóndann svo tryggt sé leyfi til dreifingar á kjötinu. Það sama á við ef bóndinn tekur kjötið heim eingöngu til að dreifa því þ.e. hvorki sagar það né vinnur. (sjá nánar svar við spurningu 9)
Frumframleiðsluvörur undir smáræðismörkum „Smáræðisreglugerð“ 580/2012
Ekki er krafist starfsleyfis, en í sumum tilvikum skráningar hjá heilbrigðiseftirliti, þegar framleiðsla, markaðssetning og afhending fellur undir svokölluð smáræðismörk. Seljandi þarf þó ávallt gæta að matvælaöryggi og hollustuháttum eins og geymslu, kælingu og rekjanleika. Eftirlitsaðilum er heimilt að sinna eftirliti telji þeir nauðsyn til.
Hér er um að ræða frumframleiðslu á litlu magni matvæla beint til neytenda og staðbundinna smásölufyrirtækja. Skilyrði er að starfsemin sé tilfallandi og lúti ekki sérstöku skipulagi.
Dæmi:
- Sala á litlu magni matjurta eins og grænmetis eða berja. Hér er annars vegar greint á milli skráðra ræktenda sem selja afgangs- eða útlitsgallaða uppskeru til neytenda og hins vegar uppskeru úr einkagarði, sem er ekki skráningarskylt.
- Sala á villtum fiski úr ám og vötnum. Verður að vera slægður en ekki flakaður. Sjómaður sem vill selja beint til neytenda verður að gera það við skipshlið.
- Sala á eldisfiski til nærsamfélagsins. Verður að vera slægður en ekki flakaður.
- Sala á villtum fugli í ham. Hér skiptir veiðileyfið máli, þ.e. hvort einungis megi veiða til einkaneyslu eða líka til sölu.
- Sala á eggjum villtra fugla og landnámshæna.
- Sala á villtum sveppum, jurtum eða berjum í litlu magni.
- Sala á hreindýrakjöti af einu dýri má selja beint til neytenda eða til smásölufyrirtækis sem afhendir beint til neytenda. Háð veiðileyfi.
- Brauð, sultur, slátur, kæfur o.s.frv. sem er matreitt í heimahúsi má ekki selja í eigin hagnaðarskyni, aðeins í góðgerðarskyni.
Kynntu þér Leiðbeiningar Matvælastofnunar frá 2012 og reglugerð 580/2012
3. Hver er ávinningur framleiðanda af því að taka þátt í REKO?
Ávinningurinn getur verið margþættur. Hugmyndin með REKO er að nýta samfélagsmiðil sem í okkar tilfelli um 90% landsmanna nota, til að tengja saman framleiðendur og neytendur/veitingamenn á einfaldan hátt. Í Finnlandi sem dæmi jókst veltan á þremur árum úr 10 milljónum í 3,8 milljarða. Þetta veltur allt á vinsældum viðskiptanna.
- Sparar framleiðendum tíma. Tími gefinn til afhendingar í REKO er að hámarki klukkustund. Í stað þess að fara með eina og eina sendingu til flutningsaðila eða keyra beint til neytenda eru allar pantanir afhentar á einu bretti. Framleiðendur sem fá engar pantanir spara sér ferðalagið á afhendingarstað.
- Framleiðandinn fær meira í sinn vasa með því að sleppa milliliðum
- Þægindin fyrir neytendur liggja í því að þeir mæta á einn stað og geta sótt pantanir frá mismunandi framleiðendum. Enginn flutningskostnaður leggst ofan á kaupin sem gerist stundum þegar pantanir fara með flutningafyrirtækjum.
- Þekktu þinn bónda, þekktu þinn mat! Framleiðandinn hefur tök á að hitta sína viðskiptavini og spjalla við þá og fá endurgjöf á vörurnar og kannski hugmyndir um vöruþróun.
- Dregur úr matarsóun. REKO gefur framleiðendum kost á að selja útlitsgallaðar vörur sem heildsalar/verslanir samþykkja ekki.
- Sterkara tengslanet. Svæðisbundnir REKO hringir gefa smáframleiðendum tækifæri til að tengjast betur, skiptast á reynslusögum og hugmyndum, fá ráð hver hjá öðrum og sameinast í hagsmunabaráttunni.
- Tækifæri til endurmarkaðssetningar. Framleiðendur geta safnað netföngum viðskiptavina til að byggja upp viðskiptavinatryggð í gegnum markpósta. Þeir hafa einnig tengst þeim í gegnum samskipti á Facebook og hafa því möguleika á frekari samskipum þar.
4. Hvernig er greitt fyrir vöruna í REKO og hvað með virðisaukaskatt og reikning?
Greiðslur fyrir matvæli keypt í gegnum REKO fara fram í gegnum heimabanka (rafrænt). Seljandi getur valið að nota eigin kennitölu eða stofnað kennitölu utan um starfsemina. Seljandi getur stofnað kröfu á kaupandann sem birtist í heimabanka viðskiptavinar eða gefið kaupanda upp reikningsnúmerið sitt. Ekki skal taka við greiðslu á staðnum og sala á vörum sem ekki er búið að panta er óheimil þar sem þetta er ekki matarmarkaður í skilningi þess orðs.
Virðisaukaskattur eða ekki?
- Ef veltan á 12 mánaða tímabili fer yfir 2 milljónir kr. (að virðisaukaskattinum meðtöldum) verður að skrá sig á virðisaukaskattskrá og bæta 11% VSK við reikninginn. Sjá nánar á vef ríkisskattstjóra.
- Aðilar sem eru með óverulegan rekstur, þ.e. sölu á vörum undir 2 milljónir kr. á hverju 12 mánaða tímabili eru undanþegnir skráningarskyldu á virðisaukaskattskrá en mega þá jafnframt ekki gefa út reikninga með virðisaukaskatti. Þeir sem tilgreina á einhvern hátt á reikningum sínum að virðisaukaskattur sé innifalinn þrátt fyrir að vera undanþegnir skulu skila skattinum í ríkissjóð.
Þarf að gefa út reikning?
Það gilda sömu reglur um sölu í gegnum REKO eins og alla aðra vöru- og þjónustusölu. Seljandi þarf að vera tilbúinn til að afhenda reikning fyrir sölunni ef kaupandi óskar eftir því.
5. Þarf að taka þátt í öllum auglýstum afhendingardögum?
Nei. Það er undir hverjum og einum framleiðanda komið hvenær hann tekur þátt og hvaða vörur hann býður upp á.
6. Ef framleiðandi getur ekki mætt á afhendingarstað, má hann fá annan aðila til að afhenda fyrir sig?
Já. Framleiðendur geta fengið vini og vandamenn til að afhenda fyrir sig og eins geta framleiðendur skipst á að afhenda fyrir hvern annan. Hins vegar er einn af kostum REKO sá að framleiðendur hafa tök á að hitta og spjalla við sína viðskiptavini og öfugt.
7. Mega aðilar sem selja vörur í verslanir, selja líka í gegnum REKO?
Já. REKO er þó hugsað sem dreifileið fyrir þá sem eru fyrst og fremst að selja beint frá sér til neytenda, á matarmörkuðum, bændamörkuðum, smáverslunum í heimabyggð og sérverslunum.
8. Mega framleiðendur selja í gegnum fleiri en einn REKO hring?
Já. Framleiðendur geta verið í tveimur, jafnvel þremur hringjum sem skarast á einhvern hátt. Framleiðandi sem býr sem dæmi í uppsveitum Árnessýslu á auðvelt með að selja í gegnum REKO Suðurland, Reykjavík og Vesturland.
Hringir sem skarast hafa verið að samstilla afhendingar sínar, t.d. höfðu REKO Vesturland og REKO Reykjavík afhendinguna á Akranesi kl. 11 og svo á höfuðborgarsvæðinu 2-3 tímum seinna í okt og nóv. Þannig gátu framleiðendur byrjað á einum stað og farið svo beint yfir á næsta stað.
9. Getur þú útskýrt aðeins betur leyfi og skráningarskyldu?
Það fer eftir eðli starfseminnar hvaða kröfur eru gerðar til hennar. Sjá nánar leiðbeiningar Matvælastofnunar um framleiðslu og sölu búfjárafurða beint frá býli.
- BEINT ÚR SLÁTURHÚSI: Ef kjöt er geymt í sláturhúsi eða viðurkenndri frystigeymslu og kjötið er keyrt þaðan beint til neytenda er ekki þörf á úttekt á starfseminni en hana þarf að skrá. Starfsemin er skráð í gagnagrunn og kemur þá fram á lista yfir starfsstöðvar að bóndinn / býlið sé með leyfi til dreifingar á kjöti beint frá viðurkenndu sláturhúsi.
- EINGÖNGU GEYMSLA: Ef kjöt er keyrt heim á býli og geymt í frystigeymslu þar, er sú starfsemi skráð í gagnagrunn og kemur þá fram á lista yfir starfsstöðvar að bóndinn / býlið sé með leyfi til geymslu og dreifingar. Ekki er þörf á úttekt áður en starfsemi hefst, en eftirlit getur átt sér stað til að skoða hvort geymsluaðstaða sé við hæfi og þá jafnvel í tengslum við búfjáreftirlit.
- EINGÖNGU SÖGUN: Ef kjötið er tekið heim á býli frosið og síðan sagað (frosið) og endurpakkað og geymt þar, koma fleiri kröfur til. Sótt er um á sama hátt og áður í gegnum þjónustugátt. Úttekt þarf að fara fram og starfsleyfi er gefið út. Starfsemin kemur fram á lista eins og áður.
- VINNSLA: Ef vinnslan er margþættari, kjöt er unnið frekar, s.s. saltað, reykt, kryddað og hakkað eða önnur matvæli unnin, koma til enn fleiri kröfur. Úttekt þarf að fara fram og starfsleyfi er gefið út í kjölfarið.