Reykjavík Foods hlaut virt alþjóðleg hönnunarverðlaun
Reykjavík Foods var stofnað árið 2016 og selur þrjár tegundir af hægelduðum lax í dós, lax með sjávarsalti, reyktan lax og lax með hvítlauk og basil. Eingöngu eru notuð íslensk hráefni í vörurnar og fékk fyrirtækið á dögunum silfurverðlaun í einni stærstu alþjóðlegu hönnunarsamkeppninni í heiminum.
„Okkar ástríða er að bjóða upp á hágæða íslenska vöru fyrir mataraðdáendur um allan heim sem er ástæðan fyrir því að Reykjavík Foods var stofnað af Þórdísi Wathne fyrir þremur árum. Ég er eini starfsmaður fyrirtækisins enn sem komið er og sé um pantanir og dreifingu á vörunum en á bakvið fyrirtækið eru Íslenski sjávarklasinn, Þórdís Wathne sem er ein af stofnendunum og ein af eigendunum og ýmsir fjárfestar,“ útskýrir Sara Björk Guðmundsdóttir og þegar talið berst að silfurverðlaununum fyrir hönnun umbúða á A’ Design Award & Competition hönnunarsamkeppninni segir hún:
„Það var alveg yndislegt að fá verðlaunin og viðurkenning fyrir okkur þar sem mikil vinna fór í að hanna umbúðirnar og erum við mjög ánægð með útkomuna sem vöruhönnuðurinn Anna Margrét Sigurðardóttir á veg og vanda að.“