Scroll To Kjötiðnarðarmenn

Samræmt kjötmat fyrir geitakjöt í fyrsta sinn

Geitin sem fyrirmynd – Þjálfun úrvinnsluaðila

Matarauður Íslands,  Geitfjárræktarfélag Íslands og Matís hafa unnið saman að verkefni þar sem tilgangurinn er að bæta geitakjötsmat og efla þekkingu kjötvinnslumanna á vinnslu geitakjöts. Hvoru tveggja skilar auknum verðmætum.

Íslenska geitin er elsta geitakynið í Evrópu og fylgt þjóðinni frá landnámi en aldrei náð sömu stöðu og sauðféð í búskap Íslendinga. Með þessu verkefni er Matarauður að styðja við varðveislu geitastofnsins sem hefur verið í útrýmingarhættu þannig að stofninn öðlist smám saman það hlutverk að vera framleiðslustofn, því það er sá stökkpallur sem þarf til að hann standi af sér þá ógn að deyja út.

Það er sérstaklega ánægjulegt að verkefnið er einnig unnið í samvinnu við Hótel- og matvælaskólann og landsliðið í kjötiðnaði.

Búið er að koma á samræmdu kjötmati fyrir geitakjöt í fyrsta skipti á Íslandi.

Það er forsenda fyrir því að hægt verði að auka verðmæti afurða úr geitaskrokkum. Umtalsverð vinna hefur farið í samskipti og þjálfun sem tengist sláturiðnaðinum og kjötmatsmönnum. Næstu skref eru áframhaldandi miðlun og að tryggja að kjötmat geita verði komið í öruggan farveg í næstu sláturtíð. Hluti verkefnisins var að beina sjónum sem flestra að geitinni, bæði þeirra sem eru að meðhöndla geitur fyrir og eftir slátrun, en ekki síður almennings sem hefur til þessa litið á geitur sem gæludýr frekar en búfjárkyn sem gefur af sér fjölbreyttar afurðir.

Samstarf við Matvælastofnun, hótel- og matvælaskólann og landslið kjötiðnaðarmanna

Ljóst er að framfarir hafa orðið á geitakjötsmati í sláturtíðinni 2018 en þetta er aðeins önnur sláturtíðin með geitakjötmati. Það háir kjötmatsmönnum hve fáum geitum er enn sem komið er slátrað en ljóst er að bætt kjötmat fæst með aukinni reynslu og námskeiðum á næstu árum. Samstarf við fagsvið kjötmats á Matvælastofnun var með ágætum en stofnunin er ábyrg fyrir kjötmati í landinu. Samstarfið var mjög mikilvægt til að koma kjötmatsreglunum í notkun og við eftirfylgni. Mikilvægt viðfangsefni var að miðla þekkingu á geitakjöti til kjötiðnaðar. Á yfirstandandi tímabili var það gert með samstarfi við Hótel- og matvælaskólann í Kópavogi og Landsliði kjötiðnaðarmanna.

Hótel- og matvælaskólinn í Kópavogi hefur samþykkt að taka geitakjöt til meðferðar í þjálfun kjötiðnaðarnema. Haustið 2018 fékk  nýstofnað landslið kjötiðnaðarmanna  það skemmtilega æfingaverkefni að úrbeina sex geitaskrokka, sem  geitabændur létu í té.  Þeir höfðu algjörlega frjálsar hendur um útfærsluna og var útkoman stórskemmtileg.

Síðar munu matreiðslunemar í Hótel- og matvælaskólanum í Kópavogi, koma inn í verkefnið, þróa uppskriftir og matreiða eins og þeir telja best.  Hér er um að ræða að nota sem mest fagþekkinguna sem er fyrir hendi hjá kjötiðnaðar- og matreiðslumönnum til að bjóða neytendum aðlaðandi bita sem sóma sér vel á hátíðarborði.

Geitakjöt ólíkt kindakjöti

Íslenskir kjötiðnaðarmenn þekkja lítið til meðferðar á geitakjöti. Þótt það líkist um margt kindakjöti er geitakjötið sérstakt og þarfnast ákveðinna vinnubragða. Því er góð leið að miðla þekkingu til upprennandi kjötiðnaðarmanna.

Geitakjöt fæst ekki enn í verslunum en auðvelt er að panta beint frá býli (sjá www.geit.is/afurd heimasíða Geitfjárræktarfélagsins).

Lesið ykkur til um geitur á vefsíðu okkar  https://mataraudur.is/hraefni/geitur/