Scroll To

Sitjum á fjársjóðskistu eðalhráefna

Ýmir Björgvin Arthúrsson er einn fjögurra félaga sem reka ferðaþjónustufyrirtækið Magical Iceland þar sem boðið er upp á matarferðir eða „gourmet-ferðir“ með hágæða íslensku hráefni. Þar fá þátttakendur mat og drykki frá morgni til kvölds þar sem allt er lagt upp úr upplifuninni.

„Okkar ferðir eru mjög persónulegar og í öllum okkar ferðum hittum við vini okkar sem eru þá einnig eigendur veitingastaða, bændur eða aðrir sem á einn eða annan hátt tengjast mat og drykk. Við forðumst ávallt „fjöldan“ og förum á fáfarna staði með því að búa til einstaka upplifun á slíkum „leynistöðum“. Ég er leiðsögumaðurinn í flestum ferðum, en stundum þarf ég að ráða leiðsögumenn í minn stað og þá vinnum við eingöngu með þeim bestu og alltaf heimamönnum sem deila sögum úr sínu lífi á milli þess sem verið er að gæða sér á góðum mat og drykk“, útskýrir Ýmir.

Íslenska lambið og smjörið slá í gegn

Upphafið að ferðunum var árið 2010 þegar Ýmir og kona hans, Hrefna Ósk Benediktsdóttir, opnuðu bókunarstofu þar sem þau seldu ferðir annarra. Í einkaferðunum eru gestirnir aðallega frá Bandaríkjunum.

„Fljótlega eftir að við opnuðum bókunarstofuna bar á því að okkar gestir voru að leita að einhverju öðruvísi en það sem við seldum mest, það er að segja einhverju öðru en „klassískum“ rútuferðum. Fljótlega var ég farinn að fara einkaferðir og með litla hópa ferðir á Snæfellsnesið þar sem við heimsóttum bændur sem eru vinir okkar, fórum í útreiðartúra, hoppuðum í sjóinn, grilluðum um kvöldið og nutum lífsins. Þessar ferðir þróuðust síðan yfir í einskonar lúxus einkaferðir.

Síðastliðin 5 ár höfum við boðið upp á slíkar einkalúxus ferðir á Suðurlandi, Snæfellsnesi og í Reykjavík,“ segir Ýmir og bætir við:„Okkar vinsælustu ferðir hafa verið „Gourmet golden circle“ og „Reykjavik Food & Wine“. Nýlega fórum við að bjóða upp á „Reykjavik Food & Wine“ fyrir „max 12 foodies“ og það þýðir að einstaklingar og pör geta keypt sig inn í þann túr. Við heimsækjum veitingastaði, litla bari, listamenn og fleira.

Reykjavik Food & Wine túrinn okkar er orðinn sá langvinsælasti og við erum endalaust stolt af því að vera með eingöngu 5 stjörnur á Tripadvisor öll þau ár sem við höfum verið með ferðirnar okkar. Íslenska lambið og smjörið okkar er það sem allir elska. Einnig er allt okkar ferska sjávarfang í miklu uppáhaldi. Allir eru ávallt jafn hissa og gríðarlega ánægðir með gæðin á okkar mat og drykkjum. Við sitjum jú hérna á algjörri fjársjóðskistu sem er allt okkar ferska og frábæra hráefni. Eins er borðleggjandi hvað það hefur mikil áhrif á upplifun okkar gesta að dansa við sem flest skynfæri, þar með talið bragð og lykt!“