Scroll To

Skyrbar og sýning opnuð á Erpsstöðum

Rjómabúið Erpsstaðir hefur í nokkur ár framleitt skyr upp á gamla mátann, kynnt framleiðsluaðferðina og sagt ferðamönnum sögu skyrsins. Í gær, 8. apríl, var formleg opnun á sögusýningu, fræðslusetri og smakkbar á hinu hefðbundna íslenska skyri. Húsfyllir var við opnunina sem þótti takast prýðilega vel þar sem skemmtikraftar tróðu upp, allt til heiðurs skyrinu.

Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Matís út frá hugmyndafræði ÉCONOMUSÉE®-samtakanna, svokallaðra hagleikssmiðja. Hönnuðurinn Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir er listrænn stjórnandi verkefnisins og fékk hún myndlistarmanninn Auði Lóu Guðnadóttur til liðs við sig við uppsetningu sýningarinnar.

Við opnunina gengur Rjómabúið Erpsstaðir inn í alþjóðlegu samtökin ÉCONOMUSÉE®-network. ÉCONOMUSÉE®-network eru samtök handverksfyrirtækja sem viðurkennd eru fyrir gæði sín og sérstöðu, og opna dyr sínar fyrir almenningi til að deila ástríðu sinni á viðfangsefni sínu og arfleifð. Um 80 handverksfyrirtæki í átta löndum eru nú aðilar að samtökunum. (Mynd: Matís).