Scroll To vinningar frá beint frá býli, Mjólkursamsölunni og Air Iceland Connect

Stofnun Félags smáframleiðenda matvæla í burðarliðnum

Stofnfundur Félags smáframleiðenda matvæla verður haldinn þann 3. september nk. frá kl. 13-15 í fundarsal í húsakynnum Samtaka iðnaðarins, Borgartúni 35, 104 Reykjavík. Fundurinn er öllum opinn.

Ólík verkefni sem hafa verið unnin á vegum Matarauðs Íslands undanfarin tvö ár hafa gefið til kynna þörf á öflugra samstarfi og samtakamætti smáframleiðenda matvæla. Dæmi um slík verkefni eru hinir svokölluðu REKO hópar þar sem milliliðalaus viðskipti milli smáframleiðenda og neytenda fara fram í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook og greining á starfsemi Beint frá býli.

Samkvæmt Oddnýju Önnu Björnsdóttur ráðgjafa, sem unnið hefur að ýmsum verkefnum fyrir Matarauð Íslands og fleiri, starfar mikill og vaxandi fjöldi smáframleiðenda matvæla í landinu. „Þeir séu að verða sífellt sýnilegri og fyrirferðameiri á markaði og um leið hafi eftirspurn eftir slíkum matvælum stóraukist. Því sé kominn tími til að þeir sameinist í einu félagi sem vinni að hagsmunamálum þeirra á ólíkum sviðum, sé opinber málsvari þeirra og stuðli að framförum í málefnum sem þá varðar.“

Fundarboð má finna á Facebook undir heitinu: „Stofnfundur Félags smáframleiðenda matvæla – vinnufundur“ og eru áhugasamir hvattir til að merkja við hvort þeir sjái sér fært að mæta. Hægt verður að tengjast fundinum í gegnum fjarfundarbúnað.

 

DAGSKRÁ

13:00 Fundur settur og farið yfir aðdragandann

13:15: SVÓT greining

13:45: Samþykktir

14:15: Aðgerðaáætlun

14:45: Kosning stjórnar

15:00: Fundi slitið