Garðamatur & jurtir

Scroll To Matarauður Íslenskt blómkál

Rófur, gulrætur, blómkál ofl.

Matarauður Íslenskt blómkál
788

Allt er vænt sem vel er grænt

Rófur og næpur hafa verið ræktaðar á norðlægum slóðum allt frá því á bronsöld. Í fornum handritum má finna heimildir um að forfeður okkar hafa verið með matjurtagarða allt frá upphafi byggðar á Íslandi. Ekki eru til miklar upplýsingar um hverskonar matjurtaræktun hafi átt sér stað en að öllum líkindum hafa það verið kryddjurtir og næpur. Gulrófur eru kynbættar næpur og komu ekki á sjónarsviðið fyrr en um 17. öld. Líklegt er að hert hafi að ræktun þegar kuldatímabil hófst um 1400 sem varði til um 1900.

Rófur eru ásamt kartöflum eitt algengasta rótargrænmetið sem ræktað er á Íslandi og eru þær nýtar til matargerðar. Í dag hafa fleiri tegundir rótargrænmetis bæst við, svo sem rauðrófur og gulrætur. Ennfremur ræktum við blómkál, hreðkur, grænkál, hnúðkál, hvítkál, brokkólí og fleira. Margir Íslendingar eru með sína eigin matjurtagarða og hafa skólagarðarnir átt stóran þátt í uppskeru margra barna.

Í harðærum komust konur upp á lag með að nýta hvers kyns jarðargróður. Bjarni Pálsson landlæknir segir frá því að þeir Eggert Ólafsson hafi á ferð þeirra um landið 1752–1757 hvatt íbúa til að nýta allan ætilegan jarðargróður. Líklegast er að þessi áróður hafi borið árangur, sögur fara af mikilli neyslu smára eða smæru sem tekinn er á haustin, fergður niður í hrein ílát og snæddur að vetrinum ásamt sölvum og hvannarrót en einnig seyddur í mjólk sem drukkin var að kvöldi dags.

Norrænir menn þekktu baunir á miðöldum og á 18. öld er farið að flytja töluvert af þeim til Íslands. Um var að ræða gular heilbaunir eins og við þekkjum sem meðlæti með saltkjöti en sömuleiðis var búin til baunastappa með smjöri. Ef baunir voru soðnar í léreftspoka í hangikjötssoði var rétturinn kallaður pokabaunir. Hangikjöt og pokabaunir voru þorláksmessumatur í Öræfum. Grænu baunirnar eins og við borðum gjarnan með hangikjöti í dag urðu ekki algengar fyrr en í seinna stríði.

Laukgarðar voru þekktir og er laukgarður Guðrúnar Ósvífursdóttur sennilega sá þekktasti. Klaustrin ruddu brautina fyrir nytjajurtir og ræktuðu meðal annars næpur og baunir. Í lok 17. aldar voru stórir kálgarðar á Þingeyrum og Möðruvöllum. Íslendingar tóku seint við sér í grænmetisáti þrátt fyrir að upplýsingar lægju fyrir um nytsemi og næringargildi þeirra.

 

Fjallagrös, hvönn, ber ofl.

Hvönn
796

Stígum létt til jarðar

Í aldanna rás hafa forfeður okkar nýtt sér jurtir sem þrífast í íslenskri náttúru sér til lækninga og heilsubótar. Margar jurtir töldust hafa lækningaeiginleika og voru óspart notaðar gegn hinum ýmsum kvillum. Hér áður fyrr var farið í svokallaðar grasaferðir á fjöll. Þá var jurtum safnað í léreftspoka og þær þurrkaðar þegar heim var komið til notkunar síðar um veturinn.  Fjallagrös, hvannir og hvannarætur, skarfakál og ber hafa alltaf verið nýtt á Íslandi til matar og matargerðar

hundasúrusalat, Jessica Vogelsang

„Alkunnur er lækningamáttur jurtar þessarar gegn skyrbjúgi, en þótt sjúkdómur þessi sé mjög algengur hér, þá eru þeir samt allt of fáir, sem nota skarfakál við honum“

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar  1772

Áhugi á náttúrulækningum og heilsuvörum hefur beint sjónum okkar að nýju að íslensku jurtunum. Í dag eru margar jurtir notaðar til að búa til bragðgóðar teblöndur, í græðandi krem, snyrtivörur og til matargerðar. Með nútímarannsóknum hefur verið sem sýna fram á lækningamátt og hollustu jurtanna. Þar fara fremstar í flokki hvönn og fjallagrös. Vitað er að Sæhvönn var einnig nefnd spekingsjurt og meistarajurt og var notuð við töfra. Best er að tína jurtirnar þegar þær eru annaðhvort við það að blómgast eða í háblóma og er því júlí besti tíminn til horfa í kringum sig eftir áhugaverðum jurtum. Æskilegt er að tína jurtirnar í þurru veðri, helst fyrripart dags þegar þær eru sem ilmríkastar.

Það er gott að geta gripið til jurta á öllum tímum ársins. Ef við getum ekki nýtt okkur þær í blóma, þurrkum við eða frystum jurtirnar til seinni notkunar. Auðvelt er að þurrka jurtir innandyra í skugga, bundnar saman í litlum knippum. Þegar tejurtir eru þurrkaðar er gott að gefa sér um eina viku til að fullþurrka þær við stofuhita og án þess að sólarljós skíni á þær. Þegar jurtirnar eru fullþurrkaðar er þær geymdar í lokuðum glerkrukkum á skuggsælum stað.

Fjallagrös eru sérstakt fyrirbæri en þau eru sambýli þörungs og svepps. Grösin vaxa um allt til fjalla þar sem gróður fyrirfinnst. Þau hafa oft komið sér vel þegar illa hefur árað hjá okkur í gegnum aldirnar. Grösin hafa verið nýtt til matargerðar með ýmsum hætti, t.d. til að drýgja mjöl, út í grauta eða til að búa til einfaldan vatnsgraut þegar ekkert annað var til í kotinu. Algengt var að búa til sæta hóstasaft úr grösunum í sveitinni í gamla daga og þóttu fjallagrös góð við kvillum í öndunarfærum og meltingarvegi. Í dag nýtum við grösin með fjölbreyttari hætti, á mörgum heimilum leynist poki af fjallagrösum sem tínd voru í skjóli fjallanna á liðnu sumri.

Á Íslandi vaxa ber um víðan völl.  Nokkrar tegundir berja eru til manneldis á Íslandi: Aðalbláber, bláber, krækiber, hrútaber, villt jarðaber, reyniber, sortuber, einiber og nú nýlega hafa fundist títuber!  Berin voru etin fersk og geymd í sýru eða skyri til bragðbætis.  Margir tína berin beint upp í sig en aðrir tína í krukkur til að taka með sér heim. Vinsælt er að sulta þau eða einfaldlega að borða þau nýtínd með rjóma og örlítið af sykri. Nokkur gróðurhús sérhæfa sig í ræktun jarðaberja, brómberja og hindberja á Íslandi.

Rabarbari

Rabarbari Ljósmynd Jessica Vogelsang
960

Rabarbari hefur verið ræktaður á Íslandi í meira en 130 ár. Þessi fjölæra planta náði gríðarlegum vinsældum á stuttum tíma og hana mátti finna næstum því við hvern einasta bæ og hús á landinu. Rabarbari á ættir sínar að rekja til Kína, þar er hann þekkt lækningajurt. Plantan var flutt til Evrópu líklegast á 14. öld. Í Evrópu var rabarbarinn ræktaður í klaustrum en munkarnir nýttu ræturnar til lækninga eins og Kínverjar. Rabarbari er af súruætt og telst því vera grænmeti. Íslendingar hafa fyrst og fremst nýtt leggina í eftirrétti og sultugerð en einnig örlítið í síróp og til víngerðar.

Margir eiga bernskuminningar um að hafa komist naumlega undan á harðahlaupum með reiða nágranna á hælunum. Ránsfengurinn var þá safaríkur rabarbaraleggur sem dýft var í strásykur og tugginn og soginn sem sælgæti.

Vinsældir rabarbarans hefur dalað nokkuð síðustu áratugina, kannski ekki svo skrítið þar sem framboð á ávöxtum og grænmeti hefur aukist mikið. Hann hefur hinsvegar slegið í gegn hjá þekktum kokkum um allan heim, rabarbarinn er komin í tísku. Rabarbaranum hefur verið fundið nýtt hlutverk í matargerðinni, hann er mikið notaður sem meðlæti eða krydd í allskonar rétti og er notaður til víngerðar og fleira. Rabarbarabragðið þykir eftirsóknarvert. Rabarbarinn er með því fyrsta sem stingur upp kollinum úr moldinni á vorin. Þegar hann er ungur og nýsprotinn er hann bestur. Því er um að gera að nýta hann í eitthvað fleira en í sultugerðina.

Kartöflur

Matarauður kræskilegar kartöflur
964

Almenn kartöfluræktun í Evrópu byrjaði bæði hægt og seint. Árið 1670 óskaði íslenskur jarðræktarmaður eftir því að fá útsæðiskartöflur sendar en óvíst er að honum hafi orðið að ósk sinni en staðfest frásögn um fyrstu uppskeruna er frá árinu 1758. Þær kartöflur voru ræktaðar á Bessastöðum þar sem forseti vor býr í dag.

Eftir hinar miklu hörmungar sem Skaftáreldar leiddu yfir land og þjóð í lok 18. aldar hófst almenn ræktun á matjurtum og þar með talið kartöflum. Eitt elsta og vinsælasta kartöfluafbrigiðið er sænskt að uppruna en það eru rauðar kartöflur. Kartöflur eru mikið borðaðar á Íslandi og eru bornar fram með flestum mat. Kartöfluræktun er vinsæl meðal almennings. Mörg sveitarfélög bjóða fólki aðgang að görðum til að rækta kartöflur sínar gegn vægu gjaldi. Þetta er heilmikil búbót í dag eins og áður fyrr en það er ekki leiðinlegt að borða sínar eigin kartöflur langt fram eftir vetri. Smælkið er algjört sælgæti með smjöri og ferskum kryddjurtum og pönnusteiktum sjóbirtingi.

Sveppir

Sveppur. Ljósmynd Bændablaðið
1001

Fyrri er næring en fullur magi

Ásýnd landsins okkar hefur breyst mjög mikið síðastliðin ár með aukinni skógrækt. Við landnám var Ísland skógi vaxið frá fjöru og lengst upp á hálendið. Veðurfar breyttist mikið upp úr 11. öldinni, veður fór kólnandi og það gekk hratt á skógana. Á nokkrum stöðum hefur gamli skógurinn varðveist en flestir skógar eru nýir. Með skógræktinni hafa áhugaverðir matsveppir bæst við matargerðina hjá okkur. Villisveppir hafa ekki verið mikið nýtir fyrr en síðustu áratugina. Þar sem kjarr vex er gnótt sveppa, þeirra tími er ágúst og september. Á Melrakkasléttu eru í dag tíndir villtir sveppir, smálubbar sem eru þurrkaðir og seldir bæði á svæðinu og til veitingastaða í Reykjavík.

Ekki var mikil hefð fyrir sveppaneyslu hér á landi, þó gerðu Skagfirðingar graut úr sveppum soðnum í mysu. Sveppir falla einmitt til í lok túnsláttar áður en farið er á sölvafjöru. Björn í Sauðlauksdal gefur leiðbeiningar um sveppaneyslu bæði í Arnbjörgu og Grasnytjum og mælir með því að „sjóða þá og geyma síðan í sýru, séu þeir þannig betri og óhættari að eta en ef þeir eru frískir etnir“. Sveppir eru eitt af vel vörðum leyndarmálum íslenskrar náttúru.

Svepparækt hefur verið stunduð síðan 1960, fyrst á Laugalandi í Borgarfirði og í dag er umfangsmikil svepparækt á Flúðum sem sér íslenskum heimilum fyrir þessu dásamlega hráefni.

Tómatar, agúrkur, paprika

Matarauður Íslensk uppskera web
1283

Þegar horft er til ylræktar á Íslandi þá framleiðum við mest af tómötum, agúrkum og papriku.

Það var ekki fyrr en í lok 18 aldar að tómatarækt hófst fyrir alvöru í Evrópu, mest í Suður-Frakklandi og á Ítalíu. Á Íslandi birtust fréttir af fyrstu tómataræktuninni árið 1925 í gróðurhúsi Bjarna Ásgeirssonar að Reykjum í Mosfellssbæ. Tómatur er hlaðinn næringarefnum og auðugur af vítamínum og steinefnum. Tómaturinn er einnig ríkur af Lýkopeni.

Agúrkur eru 96% vatn og þær eru auðugar af A-, B-, og C-vítamíni. Sagt er að agúrkur dragi úr andremmu. Á Íslandi ræktum við hefðbundnar agúrkur og líka minni gerð. Nú eru prófanir í gangi með að nota íslenskar agúrkur í snyrtivörur.

Paprikan er rík af B-, og C-vítamíni og er til græn, gul og rauð. Uppruna þeirra má rekja til Mið- og Suður-Ameríku. Kólombus kom með paprikuna til Evrópu árið 1493.