Scroll To

Þarf að koma REKO-hugtakinu á flug hérlendis

Nú hefur hugmyndafræðin um REKO-hringi smáframleiðenda fengið nokkurn reynslutíma á Íslandi en betur má ef duga skal því svo virðist sem þessi valmöguleiki fyrir smáframleiðendur hafi ekki náð almennilegu flugi hérlendis. Guðný Harðardóttir, einn af framleiðendum Breiðdalsbita, telur að hvetja verði smáframleiðendur til dáða sem margir hverjir eru uppteknir við að sinna öðrum verkefnum.

REKO-hugmyndafræðin gengur út á sölu smásöluaðila á ákveðnum svæðum þar sem markaðssetning og pantanir fara fram í lokuðum hópum á Fésbókinni án nokkurra milliliða. Allir geta verið með í REKO-hópunum þar sem smáframleiðendur og kaupendur mæla sér mót til að selja/kaupa vörur í gegnum Fésbókarsíður. Engin sala fer fram á sjálfum síðunum heldur sammælast framleiðendur og kaupendur um að hittast á ákveðnum stað á þar til gerðum tíma til að afhenda/kaupa vörurnar.

„Þetta hefur gengið hægt, því ég og aðrir framleiðendur hafa verið mjög uppteknir. Við verðum að hvetja smáframleiðendur til dáða með að þetta sé vettvangur sem fólk hefur áhuga á. Auðvitað er ég sem smáframleiðandi að finna leiðir til að skila sem mestum hagnaði og því miður er það ekki með flutningi á vörum í verslanir eins og til Reykjavíkur. Því vil ég reyna þessa leið og trúi því að aðrir smáframleiðendur og ræktendur fylgi, því grænmetisræktun og ávaxtaræktun hefur stóraukist á austurlandi undanfarin ár og vona ég að einstaklingar selji afurðir sínar á þessum markaði,“ útskýrir Guðný og segir jafnframt:

„Bændur eru mjög uppteknir og þurfa að sinna mörgum verkefnum. Smáframleiðendur eru mjög breiður hópur af fólki með ólíkar forsendur og framleiðslu og kannski er erfitt að sameina þarfir þeirra. En nú stefnum við á fyrsta markaðinn þann 31. júlí á Egilsstöðum. Sjáum hvernig það mun ganga en hægt er að finna upplýsingar um það á Fésbókinni undir slóðinni https://www.facebook.com/groups/1834573129990278/ „