Scroll To

„Þjóðlegu matarbakkarnir hafa slegið í gegn“

Í menningarsetrinu Íslenska bænum að Austur-Meðalholtum í Flóahreppi hefur myndlistarmaðurinn Hannes Lárusson hannað og þróað áhugaverða þjóðlega matarbakka fyrir ferðamenn þar sem íslenska vínartertan og ekta rjómapönnukökur vekja mesta lukku meðal gestanna. Hér fara saman listamaðurinn og matgæðingurinn í Hannesi þar sem nostrað er við hvert smáatriði í matarbökkunum.

Eftir þó nokkra þróunarvinnu var boðið upp á fyrstu þjóðlegu matarbakkana í Íslenska bænum árið 2015 og er hver og einn þeirra sérstakur því að hámarki er tekið á móti 30 manns í einu.
„Við vildum hafa hefðbundinn íslenskan mat með sérstakri áherslu á handverk, það er gæði hráefna, uppskriftir og framkvæmd. Einnig hefur fagurfræðileg framsetning verið í fyrirrúmi. Þessir bakkar hafa í gegnum árin meðal annars verið hluti af Delicious Golden Circle hjá Gray Line, en líka framreiddir fyrir sérstaka high end hópa og það má alveg segja að þjóðlegu matarbakkarnir hafa slegið í gegn,“ segir Hannes og lýsir þessu áfram:
„Þetta er allt saman handverk og mér finnst mikilvægt að líta á það þannig. Ég hef bakað brauð síðan í menntaskóla, í 40 ár en er í rauninni listamaður, ekki matreiðslumaður. En ég hef áhuga á að fara í saumana á hráefninu og uppskriftum þar sem mér finnst smáatriðin skipta miklu máli ásamt framsetningunni.“

Snýst allt um rétta útfærslu
Hannes telur marga þróunarmöguleika í matarhefðinni en að mörgum sem eru í hans sporum þyrftu aðstoð við að koma hráefninu á lengri spöl.
„Það er ekkert auðvelt að baka almennilegar pönnukökur og ég segi að það taki mann 50 skipti áður en þær verða góðar. Þetta þarf allt að vera rétt útfært. Eins er með vínartertuna sem er mjög vinsæl hjá okkur, þar þarf maður að baka hvert lag fyrir sig svo hún er mikið handverk og auðvitað þarf sultan að vera rétt í henni. Fólk er almennt mjög hrifið af rjómapönnukökunum hjá okkur því það fær þær ekki svona annarsstaðar en kleinurnar eru meira hversdagslegri,“ útskýrir Hannes og segir jafnframt:
„Það eru þarna inni á milli nokkrir bitar sem alltaf var hugmyndin að þróa áfram, jafnvel inn í einhvers konar fjöldaframleiðslu, sérstaklega tel ég að harðfiskur/smjör/söl- og fjallagrasabúðingurinn eigi mikla möguleika í réttum útfærslum. Hvað fjöldaframleiðslu varðar þá tel ég þó fuglasúkkulaðið með þurrkuðum bláberjum eigi kannski mesta möguleika og gæti orðið að stóriðnaði ef rétt yrði á haldið. Það væri í rauninni hægt að þróa alla þessa bita sem við erum með og jafnvel bakkann í heild til fjöldaframleiðslu með því að vakúmpakka þá til að selja til ferðamanna. En þá er maður auðvitað kominn í allt aðra vinnslu og starfsemi sem að aðili eins og ég þyrfti aðstoð við að þróa og koma áfram af utanaðkomandi aðilum en það væri vissulega mjög áhugavert.“