Scroll To

Upplifun á íslenskum fiski aðalsöluvaran

Fyrirtækið Fisherman á Suðureyri var stofnað fyrir 17 árum af Elíasi Guðmundssyni til að sérhæfa sig í móttöku gesta sem komu í sælkeraferð um sjávarþorpið þar sem lífið snýst um fiskinn. Einnig rekur hann 19 herbergja hótel í bænum ásamt sjávarréttaveitingahúsi og kaffihúsi. Nýlega bættist síðan í skrautfjöður fyrirtækisins sérverslun með fiskmeti í vesturbænum í Reykjavík sem heitir Fiskisjoppa & eldhús þar sem viðskiptavinir geta keypt sér fiskrétti til að elda heima, taka með tilbúið eða borða á staðnum.

„Sælkeraferð Fisherman er gönguferð um lítið sjávarþorp þar sem allt byggir á fiski. Sögumaður fer með hópinn um Suðureyri og segir frá upphafi byggðar, hvernig þorpið hefur þróast í vinalegt samfélag sem byggir á hágæða matvælavinnslu. Komið er við í fiskvinnslu ásamt því að fara í fiskiskóla og einnig fá gestir að smakka á framleiðslu heimamanna í ferðinni sem tekur rúma klukkustund,“ segir Elías og bætir við:
„Þannig að upphaflega hugmyndin var og er enn að reka ferðaþjónustu tengda upplifun á fiski á Vestfjörðum. Það nýjasta hjá okkur er smá hliðarskref í rekstrinum en í haust opnuðum við Fiskisjoppu á Hagamel í Vesturbænum sem hefur notið vinsælda. Þar velur fólk sér fisk, meðlæti og sósu sem bæði er hægt að borða á staðnum eða til að taka með heim. Úrval af vörum okkar er einnig komið í sölu í öllum verslunum Hagkaupa. Við leggjum upp með að vera með hráefni að vestan sem við þekkjum vel og við vitum hvaðan fiskurinn kemur. Við bjóðum líka gestum að upplifa allt um fiskinn og hvaðan hann kemur í okkar dagsferðum fyrir vestan svo það er allt upp á borðinu hvaðan hráefnið kemur og hvernig það er unnið hjá okkur.“