Saltfiskklattar á rúgbrauði

  • Allt árið

  • Fiskréttur

Saga réttar

Þegar ég og systkini mín voru lítil fannst okkur saltfiskur með hömsum ekkert sérstakur. En tilhlökkunin var að fá um kvöldið klatta sem mamma gerði úr afgöngunum og rúgbrauðssneið með. Það þótti okkur gott. Því er rétturinn smíðaður upp úr þessari minningu.

Uppskrift

Klattar: Kaldur soðinn saltfiskur og kartöflur til helminga. Kartöflur stappaðar gróft og saltfiskur rifinn gróft niður. Þessu blandað saman og eitt egg sett út í og kryddað með pipar. Smá mjöl saman við til að halda þeim betur saman (má sleppa). Klattarnir mótaðir og steiktir á pönnu upp úr olíu og smjöri til helminga hvort. Klattar teknir af og laukhringir steiktir í feitinni.
Saltfisksalat: Majones og sýrður rjómi til helminga, hræt saman. Sundurrifinn saltfiskur og fínsaxaður hvítlaukur sett út í og hrært vel.
Rúgbrauðsmylsna: Rúgbrauð er rifið niður frekar fínt og þurrkað á plötu í ofni þar til það er vel þurrt.
Rétturinn settur saman: Rúgbrauðssneið smurð, klatti settur á sneiðina, laukur og salatið sett á klattann. Loks skreytt með rúgbrauðsmylsnunni. Rúgbrauðið er undir og ofan á.