Ábrystir með karamellu og sjávarsalti

  • Vesturland

  • Allt árið

  • Kaffibrauð

Saga réttar

Ábrystir hafa mér alltaf þótt góðar en vandist því í barnæsku að borða þá með kanilsykri eða saft. Ég hef mikinn áhuga á íslenskum mat, enda bóndi í mjólkur- og nautakjötsframleiðslu. Síðastliðið sumar fór ég að hugsa um það hvernig ég gæti lyft ábrystum á aðeins hærra plan, enda tel ég brodd vera holla og vannýtta afurð, þó auðvitað sé hann nauðsynlegastur nýfæddum kálfum. Bauð ég fólki upp á þennan rétt sem eftirrétt og sem kaffimeðlæti við góðar viðtökur. Svo skemmir ekki fyrir að fyrir valinu er aðeins íslenskt hráefni.

Uppskrift

Broddur er settur í ílát sem að þolir hita, eldfast form eða krukkur, ásamt örlitlu salti. Hitað í ofni á 180 gráðum þar til hefur hlaupið í ábrystir. Er ýmist látið kólna og þá borið fram kalt eða heitt, bæði gott að mínu mati.

Karamella ofan á ábrystir
Einn poki Góu karamellukúlur
Hálf plata Nóa síríus rjómasúkkulaði með karamellukurli og íslensku sjávarsalti.
4 matskeiðar rjómi

Brætt saman í potti og sett yfir ábrystir.

Að lokum er hálf plata af rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti söxuð niður og sett aðeins ofan á karamelluna ásamt örfáum flögum af sjávarsalti frá Saltverk.