Bláberjasíld

  • Norðurland

  • Haust

  • Fiskréttur

Saga réttar

Það hefur verið hefð hjá tengdó að hafa alltaf 2 - 3 síldarrétti með í þorrabakkann, sem hún útbýr af einstakri snilld fyrir árlegt blót sveitunga austan Vatna í Skagafirði. Ég hef látið fljóta með nokkra nýstárlega síldarrétti í bakkann í gegnum tíðina. Einn af uppáhalds réttum mínum í þessu síldarstússi er bláberjasíldin, ekki bara bragðgóður heldur líka fallegur réttur. Svo er þetta auðvitað algjör snilld á jólahlaðborðið.

Uppskrift

Bláberja síld með piparótarskyrsósu

8 stk marineruð síldarflök
250 gr, bláber /aðalbláber best, en öll islensk bláber góð
1, 5 dl hrásykur
1 ½ lítin rauðlauk/einn stóran (fást orðið víða lífrænir, litlir en bragðmiklir) skorin í litla teninga (gott að gera smá auka fyrir skraut)
1 búnt af fersku dilli
Síldin er skorin í mátulega munnbita. Bláberjunum er komið fyrir í potti ásamt dreitil af vatni. Hellið sykrinum yfir og látið suðuna koma upp, þannig að sykurinn bráðni, Ekki hræra mikið í blöndunni. Blandið síldarbitunum og rauðlauksteningum varlega saman við bláberin og og látið kólna og marinerast. Best er að gera þennan rétt deginum áður og láta síldina marinerast í sólarhring í kæli.

Piparrótarskyrsósa
1 lítil dós hreint hrært skyr
1 ½ msk góð ólífuolía
5 mtsk rifin piparrót (ath. að piparrótin sé af góðum gæðum)
1 msk sítrónusafi
2 mtsk íslenskt birkisíróp
Nokkrir dropar af Worschestersósu
Smakkast til með íslensku sjávarsalti og einum eða tveimur snúningum úr piparkvörninni.

Sildin er skreytt með dilli, rauðlauksteningum og sáldrað yfir með nokrum heilum ferskum bláberjum.

Meðlæti, ilmandi (helst heimabakað) rúgbrauð, smjör og harðsoðin egg - frískleg piparrótarskyrsósan er svo punkturinn yfir i-ið á þessum þjóðlega haustrétti.

Á meðfylgjandi mynd tekin síðsumars 2014, er platti sem ég útbjó úr íslensku lerki, stein frá Djúpalónssandi undir smjörkípuna og lyng til skrauts.

Það á einstaklega vel við hér, ef svo ber undir, að fá sér einn kaldan frá einum af mörgum örbrugghúsum landsins og hélaðan handunninn birkisnaps, úr birkisýrópi frá birkinu í Hallormsstaðarskógi.