Brauðsúpa Áróru

  • Allt árið

  • Súpa

Saga réttar

Brauðsúpa móður minnar er mér afar minnistæð. Þegar ég var lítil stelpa að koma heim eftir að hafa verið á skautum niður á tjörn, þá beið móður mín með heita brauðsúpu, en brauðsúpuna hafði hún líklega lært að elda þegar hún var í húsmæðraskólanum á Ísafirði, líklega um það leyti sem seinni heimstyrjöldin hófst, uppúr 1939-40. Brauðsúpan hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér enda ljúffeng og saðsöm. Uppskriftin er í grunninn móður minnar en ég bætti við brúnkökudufti og kóríander, sem er að mínu mati góð viðbót. Meðfylgjandi er mynd af brauðsúpunni, mér fannst við hæfi að setja hana í þjóðlegan búning. Skálin( postulín) og skeiðin (silfur) er frá Alþingishátíð Íslands 1930 á 1000 ára afmæli alþingis, en þá var postulínið, silfrið og kristallinn sérstaklega hannað fyrir þáverandi ríkisstjórn. Á hverj­um hlut stend­ur með rúnaletri í ljós­blárri um­gjörð „Alþingi Íslands 930-1930“. Það má segja að þessi borðbúnaður sé einn sá sögufrægasti á landinu.

Uppskrift

Brauðsúpa Áróru
Fyrir 4

540 g af rúgbrauði -heimabakstur Stellu
600ml af malti
2 kanilstangir
2 tsk. af brúnkökukryddi – Flóra eða Katla
1msk. púðursykur
Safi úr hálfri sítrónu
1dl. rúsínur
Nokkrar sneiðar af þunnum sítrónusneiðum (4-5)
Salt
1L vatn
Þeyttur rjómi
Ferskur kóríander til skreytingar

Aðferð

Rúgbrauð skorið niður í grófa bita, sett í skál ásamt maltinu. Látið liggja yfir nótt í kæliskáp. Rúgbrauðs maltblanda sett í pott ásamt vatni, sítrónusafa, sítrónusneiðum, rúsínum, púðursykri, kanil, dash af salti og brúnkökukryddi, látið malla við mjög vægan hita í ca. tvo tíma. Rjómi þeyttur, settur á súpuna þegar komin á diska, ásamt sítrónu og fersku kóriander. Verði ykkur að góðu!