Brauðsúpa sem varð að ábæti

  • Allt árið

  • Súpa

Saga réttar

Þegar ég var lítil var siður í minni fjölskyldu að afmælisbörn máttu velja hvað væri í kvöldmatinn á afmælisdeginum. Foreldrar mínir höfðu ekki úr miklum fjármunum að spila og aðal uppistaðan í fæðunni var hrossakjöt, lambakjöt og silungur úr Veiðivötnum þar sem pabbi átti veiðirétt. Við erum 5 systkinin og vinsælast var á afmælum að velja kjúkling eða pulsur, sem ekki voru oft á borðum. Ég valdi alltaf brauðsúpu með rjóma á afmælisdaginn, sem var hversdagsmatur. Systkini mín kölluðu mig öllum illum nöfnum fyrir að biðja um svo ómerkilegan rétt. Enn þann dag í dag gefur mamma mér brauðsúpu ef ég er í heimsókn um það leiti sem ég á afmæli. Venjulega myndi ég telja þetta vetrarrétt þar sem þetta er kjarnmikil og þung súpa en þar sem ég á afmæli í júní gengur það ekki. Anna Lára Pálsdóttir

Uppskrift

Rétturinn kemur upphaflega frá Danmörku og kallast þar øllebrød. Danir eru þó með öðruvísi rúgbrauð en Íslendingar ( þeir kalla rúgbrauðið okkar köku því í því er sýróp)

Mamma var vön að safna afgangsrúgbrauði í frysti þar til nóg var komið í súpuna. Brauðið er sett í pott og látið fljóta vel yfir af vatni. Suðan er látin koma upp og brauðið leyst algjörlega upp. Út í súpuna er síðan bætt einni til einni og hálfri niðurneiddri sítrónu, vænni lúku af rúsínum og eins og einni flösku af maltextrakt. Smakkað til með salti og borðað með þeyttum rjóma.

Nemendur í Hótel- og matvælaskólanum tóku uppskrift af brauðsúpu og þróuðu í desert (myndin sem fylgir réttinum er af þeirra útfærslu)

Brauðsúpubúðingur fyrir 6 manns
500 ml maltöl
250 ml rjómi
250 ml mjólk
8 eggjarauður
200 g sykur
200 seytt rúgbrauð

Aðferð
Rúgbrauðið er bleytt upp í maltöli, rjómi, mjólk og sykur soðið saman og bætt saman við maltölið og rúgbrauð. Eggjarauðum bætt, sett í hæfilegar skálar og bakað við‘ 110 gráður í ofni í 30 til 60 mín eftir stærð formsins.

Rúgbrauðsís
500 ml mjólk
500 ml rjómi
80 g sykur
60 g glúkosi
200 g rúgbrauð

Aðferð
Öllu blandað saman hitað að suðu stöðugt hrært í á meðan, hrært í ísvél og framreiddur ofan á búðingnum.

Sítrónu og rúsínusulta
Safi af tveimur sítrónum
400 g rúsínur
Rúsínurnar eru soðnar upp í 100 ml af vatni, sítrónusafanum síðan bætt út í. Rúsínurnar eru síðan maukaðar í matvinnsluvél og borið fram með búðingnum.