Byggrisotto með rauðrófum steiktum í blóðbergi, stökku grænkáli og kúmenrjóma

  • Höfuðborgarsvæðið

  • Allt árið

  • Grænmetisréttur

Saga réttar

Sem barn var ég með beð í skólagörðum Reykjavíkur í Laugardalnum þar sem ég ólst upp. Gróðursæl vin í borg. Sjálf ræktaði ég gulrætur, karftöflur og rófur en man eftir að sjá þar fyrst ferskar rauðrófur. Heimavið voru þær bara súrsaðar í krukku. Grænkáli kynntist ég síðar og finnst heillandi hversu harðgert það er og sem dæmi hafa börnin mín verið að tína sér til átu grænkál í garði tengdó fram í október. Veit að það var ræktað hér áður fyrr en virðist svo hafa dottið út, líklega þótt rammt og barnæskan lituð af bragðlausu iceberg. En bragðið og hversu næringarríkt grænkálið er hefur komið því aftur inn í matargerð. Hef alltaf verið mjög hrifin af og notað mikið íslenskt grænmeti í matargerð og prófað mig áfram enda verið grænkeri síðan í kringum aldamótin. Það er gaman að sjá hversu hversu mikil breyting hefur orðið á örfáum árum þegar kemur að auknu úrvali fyrir grænkera, bæði í matvöruverslunum og á veitingastöðum. Því nota ég til dæmis vegan smjör sem í dag eru alveg ótrúlega góð en ég er ein af þeim sem elskuðu íslenska smjörið. Eins nota ég í réttinum vegan sýrðan rjóma og blanda með kúmeni sem mér finnst vera hluti af íslenskri kryddmenningu, Íslenska perlubyggið finnst mér svo fallegt og þar sem ítalskt risotto er vinsælt á heimilinu fannst mér tilvalið að útbúa byggrisotto. Íslenska blóðbergið svo punkturinn yfir i-ið, fallegt og bragðgott. Myndi segja að rétturinn sé góð jarðtenging og í takt við breyttar matarvenjur.

Uppskrift

Uppskrift fyrir 4
1 gulur laukur
1 hvítlauksrif
4 dl perlubygg frá Vallnesi
2 dl hvítvín
8-10 dl grænmetissoð
3 meðalstórar rauðrófur
2-3 lúkur grænkál
2 tsk blóðberg
1 tsk reykt birkisalt
1/2-1 tsk sjávarsalt
2 dl vegan sýrður rjómi
1 - 2 msk sítrónusafi
3-4 msk vegan smjör
Pipar
Ólífuolía til steikingar

Gera:
Hitið olíu potti, skerið lauk og steikið þar til glær, hellið byggi útí og steikið í 3-4 mín. Hellið hvítvíni yfir og leyfið að gufa upp. Hellið svo grænmetissoði yfir smátt og smátt. Hitið olíu á pönnu og setjið rauðrófur í bitum á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur. Látið blóðberg yfir og einnig birkisalt og smá pipar. Setjið grænkálið ofan í eldfast mót og hellið yfir olíuolíu og smá sjávarsalti. Setjið inn í ofninn á 10-15 mínútur eða þangað til stökkt. Hrærið saman rjómanum og kúmeni ásamt smá salti. Bætið smjörinu og sítrónusafa út í byggottoið. Smakkið og bætið við salti og pipar eftir smekk.
Setjið á disk risotto, rauðrófur ofan á og grænkál ofan á. Látið skvettu af kúmenrjómanum við hlið réttarins á diskinn og stráið yfir blóðbergi.
Verði ykkur að góðu!