Fjallagrasa-Brulee

  • Vestfirðir

  • Vetur

  • Kaffibrauð

Saga réttar

Við fjölskyldan reynum að nálgast fjallagrös á hverju ári. Mínar bestu minningar eru frá stundunum þegar öll fjölskyldan fór af stað með poka upp á Kollafjarðarheiði að týna fjallagrös. Afi minn ólst upp í Kollafirði og þekkti heiðina vel, á meðan við hin börðumst við að fylla litla innkaupapoka þá hvarf afi bakvið holt og hæðir og kom svo aftur með fullan svartan ruslapoka af fjallagrösum. Ég ólst upp við það að fjallgrös væru allra meina bót og trúi því enn. Hvort sem þau voru drukkin í soðnu vatni líkt og te eða löguð fjallagrasamjólk þá var það lausnin við kvefi, magapest og öðum ófögnuði. Lykillinn var að skilja grösin sjálf ekki eftir heldur borða þau með. Þegar ég svo fór að gefa erlendum vinum mínum að smakka af þeim þá voru viðbrögðin mismunandi en flestir þeirra mundu ekki eftir að hafa fundið svipað bragð. Fyrir þá sem vilja gæða sér á grösunum er auðvitað klassík að laga sér fjallagrasamjólk, ekki verra á köldum vetrarkvöldum að setja smá viský saman við og njóta. En hérna færi ég ykkur íslenska útgáfu af Brulee þar sem fjallagrösin fá að vera með.

Uppskrift

Fjallagrasa-Brulee

Innihald:
Hálfur líter rjómi
6 eggjarauður
50 grömm púðursykur
50 grömm sykur
1 hnefi hreinsuð fjallagrös
1-2 matskeiðar sykur

Aðferð:
Hita ofn í 150°C.
Setjið rjómann í pott með fjallagrösunum og látið suðuna koma upp, láta svo standa á lágum hita í nokkrar mínútur og hrærið vel í (passa að sjóði ekki, þá verður bragðið rammt).
Þeyta eggjarauður, sykur og púðursykur vel saman þar til blandan er orðin létt.
Takið pottinn af hellunni, sigtið fjallagrösin úr rjómanum og hellið honum saman við eggjablönduna, gætið þess að setja aðeins smá saman við í einu og láta þeytarann ganga á miðlungs hraða á meðan.
Hellið blöndunni í form (6 lítil) og komið þeim fyrir á ofnskúffu, hellið heitu vatni í skúffuna og látið það ná upp á mið formin, setjið álpappír yfir og bakið í 40-45 mínútur.
Þá eru formin tekin úr skúffunni og kæld (kæla vel, gott að kæla t.d. yfir nótt).
Að lokum, þegar bera á réttinn fram, er matskeið (eða tveimur) af sykri dreift yfir (s.s. skipt á milli formanna) og hann brenndur með brennara eða í ofni með grill-stillingu. Gæta að sykurbráðin sé orðin hörð ofan á réttinum áður en hann er borinn fram (gæti þurft að kæla ögn aftur).