Grasystingur
-
Norðurland
-
Haust
-
Súpa
Saga réttar
Þessi uppskrift kemur frá langömmu minni en hún kenndi ömmu minni hana. Ég lærði að búa þessa súpu til þegar ég var þriggja ára gömul en ég vildi ekki vera neins staðar en hjá henni Hrefnu ömmu. Við stóðum tímunum saman inni í eldhúsi að hreinsa fjallagrösin en við förum í lok sumars til fjalla í Þingeyjarsveitinni til að týna grösin.
Uppskrift
Fjallagrös (eins mikið magn og þú vilt)
2 lítrar léttmjólk
1 líter súrmjólk (ef þú vilt meiri ysting setur þú meiri súrmjólk)
3 msk hafragrjón
2msk salt
2 msk sykur
Allt nema súrmjólkin sett í pott og látin koma upp suða en frekar hægt svo mjólkin brenni ekki. Þetta þarf að sjóða í ca.30 mín áður en súrmjólkin er sett út í.
Helltu súrmjólkinni út í en passaðu að hræra ekki of mikið (nánast ekki neitt) það er fallegra að hafa ystinginn stórann.
Þetta er síðan soðið í 30 mín.
Borin fram einn og sér. Hollur og góður bæði heitur og ískaldur.