Gull-silungur
-
Vesturland
-
Sumar
-
Fiskréttur
Saga réttar
Öldum saman hafa bændur, þar á meðal forfeður okkar stundað silungsveiði í Skorradalsvatni. Oftast var fiskurinn þverksorinn og soðinn glænýr upp úr vatninu og var þá mikil búbót. Í dag vill fólk meiri fjölbreytni. Við sem köllum okkur „heimasæturnar“ erum að prófa okkur áfram með nýjar uppskriftir og kynnum hér með stolti hugmynd að silungsrétti.
Uppskrift
Vænt flak af villtum silungi (bleikja /urriði) er sett á smjörpappír á ofnplötu. Skornar eru nokkrar þverraufar í flakið og stungið í þær góðri klípu af Gullosti. Gott er að kreista ferska sítrónu yfir og krydda með svörtum pipar. Bakað í 6-8 mínútur í 200 °C heitum ofni. Hentar einnig á grill. Saltað eftir smekk. Nýjar ísl. kartöflur eru ljúfmeti með þessum rétti og sítrónusmjör (bráðið smjör með skvettu af sítrónusafa útí) ásamt grænmeti, beint úr garðinum.