Íslenskar lambakórónur með kryddjurtum og lakkríssalti, borið fram með hvítlaukskartöflumús, myntubrauðsósu, smjörgljáðum aspas, sveppum, radísum og þurrkuðum mangó
-
Allt árið
-
Kjötréttur
Saga réttar
Íslenska lambið Þegar maður býr erlendis kann maður enn betur að meta íslenskt lambakjöt. Núna búum við fjölskyldan í Washington D.C. í Bandaríkjunum. Við erum heppin og eigum nær alltaf íslenskt lambakjöt í frystinum því gestirnir sem koma að heimsækja okkur koma mjög oft með lambafile, hrygg eða læri. Það fylgir líka nær alltaf SS pylsupakki með. Krakkarnir okkar elska þetta kjöt og það er er virkilega gaman að elda íslenskt lambakjöt fyrir bandaríska vini okkar hér úti. Við héldum m.a. 10 manna matarboð í september í fyrra hér úti til að fagna fertugsafmælinu mínu og íslenska lambið sló í gegn. Matarminningar með lambakjöti og hittingum fjölskyldna okkar beggja frá Íslandi eru ótal margar. Það er sérstaklega dýrmætt þegar margir úr fjölskyldum okkar beggja eru fallnir frá. Það er ennfremur dýrmætt að miðla matarminningum áfram til barna sinna og skapa nýjar með fjölskyldu og góðum vinum. Þessi réttur varð til í eldhúsinu hér heima. Kryddlögurinn er unnin með áhrifum frá kryddum frá Íslandi (m.a.lakkríssaltið) og austurlöndum (m.a.cumin og cinnamon). Einnig fannst mér spennandi að prófa fennel fræin með. Það er hnetukeimsbragð af þeim og þau komu mjög vel út með. Myntubrauðsósan er uppskrift sem ég hef þróað út frá brauðsósu uppskrift frá Jamie Oliver. Hann hefur fylgt mér í eldhúsinu frá því ég fór að búa fyrir 20 árum og var að taka mín fyrstu skref í eldhúsinu. Kryddjurtirnar gat ég tekið úr garðinum hjá mér. Ég er svo heppin að búa núna þar sem veðráttan er þannig að auðvelt er að rækta kryddjurtir úti. Njótið vel og takk fyrir mig Anna Margrét
Uppskrift
Íslenskar lambakórónur með kryddjurtum og lakkríssalti, borið fram með hvítlaukskartöflumús, myntubrauðsósu, smjörgljáðum aspas, sveppum, radísum og þurrkuðum mangó
10 lambakórónur eða ca. 1 kg
Kryddlögur fyrir lambið:
• Ferskt timían (taka litlu laufin af)
• Ferskt rósmarín, laufin söxuð smátt
• Lakkríssalt, t.d. frá Saltverk
• Cumin
• Kanill
• Laukduft
• Þurrkað basilíkukrydd
• Fennel fræ
• Sítrónubörkur af einni sítrónu (saxa smátt, bara gula)
• Safi úr einni sítrónu
• Ólífuolía
• Salt og pipar
Blanda þessu öllu vel saman og leggja lambahryggsneiðarnar í löginn. Nudda honum vel á kjötið og láta liggja yfir nótt eða a.m.k 3 klst.
-------------
Takið kjötið út klukktíma fyrir steikingu til að fá jafnari eldun.
Grillið eða steikið kjötið á pönnu við frekar háan hita í 3 mínútur á hvorri hlið til að fá medium rare.
Látið kjötið hvíla í 5 mínútur undir álpappír áður en það er borið fram.
Myntubrauðsósa:
• Brauð (brauð sem er dálítið þétt í sér og helst pínulítið gamalt)
• Mynta
• 1 msk grófkornasinnep (t.d. Old style frá Maille)
• Nokkur kúmenfræ (t.d. frá Pottagöldrum)
• 3 msk ólífuolía
• 1 msk hvítvínsedik
• Salt og pipar
Saxið brauðið í smáa teninga.
Saxið myntuna einnig smátt og blanda þessu saman í skál. Gott er að hafa þrjá hluta af myntu á mótu einum af brauði. Ég er svo heppin að eiga nóg af myntu út í garði, en það kemur ekkert að sök þótt notað sé minna af myntunni. Það er líka hægt að nota þurrkaða myntu í sósuna en ferska myntan er fallegri og bragðsterkari.
Hella síðan þremur matskeiðum af góðri ólífuolíu og matskeið af hvítvínsediki.
Setja nokkur kúmenfræ út í og salta og pipra.
Sósan verður mun betri við að bíða í ísskáp í smá tíma.
Hvítlaukskartöflumús
• 6 stórar góðar íslenskar kartöflur, t.d. Gullauga
• 5 hvítlauksrif
• 200 ml rjómi
• 100 g smjör
• Salt
Flysjið kartöflurnar og skerið í 4 bita.
Merjið hvítlauksrifin og setjið í pott ásamt rjómanum. Hitið að suðu og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Kælið á meðan kartöflurnar sjóða.
Þegar kartöflurnar eru soðnar, hellið vatninu af og merjið þær í kartöfluklemmu, með gaffli eða jafnvel í hrærivél.
Setjið smjörið strax ofan í og hrærið saman við.
Hellið síðan hvítlauksrjómanum út í og blandið vel saman.
Smakkið til með góðu salti.
Gott að prófa sig áfram og hella rjómanum rólega saman við og sjá hvernig áferðin verður.
Það er annaðhvort hægt að setja síðan kartöflumúsina undir kjötið eða í litlar skálar eða fallega litla bolla og skeið með. Krökkum finnst oft mikið sport að borða kartöflumúsina sér, passa bara að eiga nóg af ábót ef það eru notaðir litlir bollar ;-)
Ferskur aspas
• Eitt búnt af ferkum aspas
• Smjörklípa
• Salt og pipar
Skolið asapasinn og brjótið trénaða hlutann af. Setjið aspasinn í sjóðandi vatn ásamt salti og ólífuolíu. Léttsjóða í 3 mínutur. Skolið aspasinn með köldu vatni. Steikja smjörklípu á pönnu og velta aspasnum þar í um 2 mínútur. Salt og pipra.
Sveppir:
• Einn pakki af fallegum íslenskum sveppum, t.d. kastaníusveppir
• Smjör
• Salt og pipar
Smjörsteikið sveppina í örfáar mínútur og saltið og piprið.
Radísur
• Nokkrar fallegar radísur
Ég á lítið rifjárn sem ég nota aðallega til að rífa sítrónubörk af. Ég prófaði að nota það á radísurnar og fékk þá fallega rauða strimla út úr ysta laginu og fallega hvíta strimla innan úr þeim.
Þurrkaður mangó:
• Nokkar sneiðar af þurrkuðum mangó (ef þið komist yfir hann)
• Hugmyndin mín upphaflega var að nota íslenska rófusnakkið frá lífræna býlínu Havarí í Berufirði, sem meðlæti og skraut, en þar sem ég bý í Bandaríkjunum þá gat ég ekki nálgast það við gerð réttarins. En kannski að rófusnakkið nái einhvern tímann til Bandaríkjanna ;-)
Ég skar þurrkaða mangóið í smáa teninga. Litríkt, fallegt og sætt á bragðið. Hvað getur klikkað? Ég setti mangóið yfir kartöflumúsina, ásamt nokkrum rósmarínlaufum úr garðinum.