Rófunúðlusúpa með kjöti og grænmeti (íslenskt Ramen)

  • Höfuðborgarsvæðið

  • Haust

  • Annað

Saga réttar

Já - undirritaður var skiptinemi í Kyoto í Japan árið 2002 þar sem Ramen núðlusúpur eru trúarbrögð. Á uppáhaldsnúðlustaðnum mínum þurfti að bíða í langri röð áður en maður komst inn og starfsfólkið var í stígvélum slík var ásóknin og hamagangurinn. Mörgum árum síðar þegar ég flutti heim byrjuðum konan mín og ég að leika okkur með að þróa núðlusúpur úr íslensku hráefni og erum algjörlega ósammála um hvort okkar geri betri súpu.

Uppskrift

Uppskrift fyrir 6 (fínt fyrir 4 manna fjölskyldu að kvöldi og hádegismat fyrir 2 næsta dag)

Soð: 1.5 L vatn, 4 hvítlauksgeirar, 100 g smjör, hálfur pakki Flúðasveppir fínt saxaðir, hálfur bolli súpujurtir, 2 laukar, bein af lambi og/eða svíni (t.d. lamabalærisbein og/eða bein af 3 svínakótilettum, gott er ef það er smá kjöt á þeim), 1 matskeið tælensk fiskisósa, 1 matskeið sesam-olía, 3 matskeiðar Lime safi og 2 matskeiðar soja sósa (helst Kikkoman-matreiðslusoja).

Innihald: Eggja-súpunúðlur (600 g), íslensk rófa (helst lítil lífræn), hinn helmingurinn af Flúðasveppapakkanum, rúllupylsa (eða steikt bjúgu), 3 egg, 2 Nori blöð og graslaukur.

Leiðbeiningar soð: Bræðið smjör í minnst 2 lítra súpupotti og steikið mjög fínt saxaða 4 hvítlauksgeira, 1 saxaðan lauk og 1/4 pakka af fínt söxuðum flúða sveppum. Látið malla í 40-60 mínútur á meðan innihaldið er undirbúið.

Innihald. Harðsjóðið eggin, takið skurnina af og skerið til helminga. Skerið hálfan pakka af Flúðasveppum til helminga og steikið upp úr smjöri og hálfri matskeið af balamik ediki. Leggið til hliðar. Skrælið rófuna skerið í fernt og sneiðið síðan í mjög fínar sneiðar. Leggið til hliðar. Takið blað af Nori sölum og klippið í tvennt. Skiptið helmingunum tveim í fjögur jafnlítil blöð (svipað stóra og gula minnismiða). Leggið til hliðar. Skerið rúllupylsustykki í tvennt eftir endilöngu og skerið síðan mjög grannar sneiðar (ef notað er bjúga þá skal skera þau eins og steikja bjúgun þangað til þau verða stökk að utan. Undirritaður hefur notað Ali-bjúgu og þau virka vel). Leggja til hliðar. Saxið vorlaukin og leggið til hliðar.

Soðið klárað: Nú ætti soðið að vera tilbúið. Hellið því í skál í gegnum sigti þannig að beinin sitja eftir. Endurtakið steikingu á 100 g smjöri en nú einungis einn fínt saxaðan hvítlauksgeira, 1 saxaðan lauk og fjórðunginn sem er eftir af Flúðasveppapakkanum mjög fínt saxaðan. Steikið þar til það er orðið mjúkt. Hellið soðvatninu sem á nú að vera tært. Bætið við salti og svörtum pipar eftir smekk.

Kjöt er flysjað af beinunum, skorið í smátt og sett út í súpuna.

Núðlurnar: Sjoðið núðlur í 7 mínútur í hreinu sjóðandi vatni. Takið úr, hellið köldu vatni yfir þær. Leggið til hliðar.

Nú er allt tilbúið og hægt að bera fram - sem er skemmtilegasti þátturinn. Í djúpa súpuskál setjið skammt af núðlum þannig að hún sé rúmlega hálf full. Ausið soði í skálina þar til það rétt nær yfir núðlurnar. Raðið 3 Nori blöðum í blævæng sem nær út fyrir skálarbarninn (þetta er eina innihaldið sem nær út fyrir). Leggið 5-6 þunnar rófusneið í þéttum blævæng í eitt hornið. Leggið þar næst 3-4 sneiðar af rúllupylsu (eða 6-7 af steiktum bjúgum) í annað horn. Leggið 5-6 steikta sveppahelminga í miðjuna. Leggið hálft egg ofan á þannig að gulan snúi upp og sáldrið hálfri handfylli af söxuðum graxlauk yfir. Það á að vera smá pláss eftir þar sem ekki er innihald og sést í núðlurnar.

Borið fram með salthnetum, kóríander,Lime bátum og Chilli-sósu (Peri-Peri er í lagi) sem mæðlæti til að bæta út í.

Í útfærslu nemenda í Hótel- og matvælaskólanum:
Í stað þess að nota núðlur voru rófuvafningar notaðir sem voru kryddaðir með repjuolíu, eplaediki og salti. Í stað innfluttrar fiskisósu var stuðst við beltisþara og sæbjúgnaduft (fæst hjá Íslenskri hollustu). Myndin er af útfærslu nemenda.