Plokkfiskur sem varð að plokkpylsu

  • Vetur

  • Fiskréttur

Saga réttar

Frá 1977-79 vorum við hjónin við nám í Bandaríkjunum. Eins og flestir Íslendingar á þeim tíma vorum við vön að borða mikinn fisk. Nú bar svo við að eini fiskurinn sem við áttum auðvelt með að nálgast voru frosin flök, stundum frá Coldwater sem var íslenskt fyrirtæki. Verandi vön glænýrri ýsu að heiman fannst okkur þurfa að matreiða þennan frosna fisk á einhvern hátt með bragði til að hann smakkaðist vel. Þá kom hugmyndin að plokkfisk með alls konar bragði t.d. tómatbragði. og karrýbragði. Einnig notaði ég fisktening og grænmetistening í jafninginn/sósuna sem ég hef síðan gert alltaf síða. Ég set aldrei kartöflur en nota oft afgangsost eða rjóma til að bragðbæta í lokin. Fyrir nokkrum árum vorum við með skiptinema frá Belgíu. Þessi réttur var einn af hans uppáhaldsréttum.

Uppskrift

Smjör
hveiti
fiskteningur
grænmetisteningur
saxaður laukur
pipar og annað krydd ef óskað er
ný ýsa eða þorskur, má líka vera saltfiskur með. (Soðinn fiskur)

Smjör brætt í potti, hveiti sett útí. bakaður upp jafningur með mjólk, grænmetis- og fiskteningurinn settur út í og síðan fiskurinn, hrært og bragðbætt með því sem fólk óskar í hvert skipti.
Borið fram með rúgbrauði, salti, túmötum og gúrku.

Útfærsla Hótel- og Matvælaskólans
Fyrir 6 manns
500 g þorskur
500 g rauðar íslenskar kartöflur
200 gulur laukur
200 ml. mjólk
50 g smjör
50 g hveiti

Aðferð
Hreinsaðu fiskinn og sjóddu upp á honum í léttsöltuðu vatni, þykktu ¼ af soðinum og mjólkina með smjörbollu þ.e 50 g af smjöri og 50 g af hveiti. Sósan soðin í u.þ.b. 20 mín og blandaðu saman soðnum fisknum og soðnum smáttskornum kartöflum, kældu. Plokkfiskurinn er settur í görnina, passaðu að að fylla görnina aðeins sem nemur 70 til 80% annars er hætta á að hún springi.

Framreitt í pylsubrauði með bearnaise sósu og fínn sneiddum djúpsteiktum skalottulauk.