Rabarbarabraggi með repjubotni 2020
-
Kaffibrauð
Saga réttar
Höfundar: Víkingur Víkingsson, Arnar Bergmann Róbertsson, Gísli Skarphéðinn Jónsson, Viktor Andri Sigurðarson, nemendur við Hótel- og matvælaskólann. Repjuhrat hugmyndin var send inn á matarauð síðuna sem tillaga að hráefni og svo vorum við svo heppnir að draga það úr hugmyndahattinum. Aðal hráefnin eru rabarbari og repjuhrat. Rabarbari fæst stundum í verslunum en repjufræ og Repjuhrat er ekki fáanlegt í verslunum en væri ágætis hráefni í bökunardeildina við hlið hveitiklíðs osfrv. Repjuhratið er mjög næringaríkt, trefjaríkt og með hátt prótein hlutfall, en prótein hlutfallið er allt að 30% í hratinu. Repjufræin eru mjög fiturík og eru því kramin til að ná úr þeim olíu sem við þekkjum flest sem repjuolíu. Hratið vill helst enda í rusli eða í einhverjum tilfellum er því gefið skepnum. Hér erum við að reyna að gefa því áframhaldandi tilgang sem fæða. Repjuhratið hefur mjög ríkjandi og einkennilegt bragð sem gaman er að nýta í kex, brauð og eflaust fullt af einhverju öðru. Rabarbara bragginn var upphaflega hugsaður sem prótein stykki vegna hversu hátt hlutfall próteina leynist í honum en próteinin liggja í „gólfplötu“ braggans ss. repjubotninum. Súra rabarbarasultan og sæta gelið vinna skemmtilega með repjubotninum og súkkulaðið gerir þennan bragga þéttan og góðan. Það sem kemur eflaust helst á óvart við þennan sykursnauða gúmmelaði bragga er hversu góður hann er fyrir líkama og sál.
Uppskrift
Repjubotn
70 gr. hafrar
30 gr. repjufræ (mulin)
15 gr. repju sýróp (1 hluti sykur 1 hluti vatn ½ hluti mulin repjufræ)
15 gr. repju olía
25 gr. mysukaramella (1l. mysa, soðin niður um 90% með 50 gr. sykur)
Aðferð
Allt unnið saman í hrærivél þar til það hefur samlagast
Rabarbarahlaup
50 gr. vatn
20 gr. sykur
20 gr. rautt rabarbara hýði
1 gr. agar
Aðferð
Við sameinum vatn, sykur og rabarbara hýði í vakúm poka og lofttæmum.
Við bökum það svo við 60°c í um 30 mínútur, svo sigtum við rabarbara hýðið frá og bætum við agar á meðan sýrópið er enn heitt.
Látum það svo kólna og stífna á viðeigandi bakka svo við getum skorið það í ræmur (stórt julienne)
Rabarbara sulta
200g rabarbari
Aðferð
Brytjum rabarbarann og látum hann malla í potti við vægan hita í um 1 klukkustund og hrærum reglulega.
Gott er að byrja með um 30 gr. af vatni í pottinum ef rabarbarinn er ferskur.
Súkkulaði
200 gr. af Omnom súkkulaði
Við notum 70% Omnom
Súkkulaðið temprum við eftir kúnstarinnar reglum… eða samkvæmt upplýsingunum á umbúðunum.
Samsetning
Tempraða súkkulaðið setjum við í sílikon form og útbúum skel, þá er sultan næst sett í formið og svo þvingum við frostna julienne hlaupinu í sultuna og toppum með repjubotninum sem við hyljum svo með meira súkkulaði og látum það svo stífna.