Scroll To

Upptökur frá ráðstefnu um neyslubreytingar og áhrif á matvælaframleiðslu

Þann 5. nóvember 2019 hélt Matvælalandið Ísland og Landbúnaðarklasinn ráðstefnu um þær neyslubreytingar sem eiga sér stað í samfélaginu og möguleg áhrif á matvælaframleiðslu í landinu.

Á undanförnum árum hefur umræða um tískustrauma í mataræði verið áberandi oft á forsendum heilsufars en að undanförnu hefur umræðan einnig snúist um umhverfis- og loftslagsmál auk dýravelferðar. Matvælaframleiðendur þurfa að taka mið af þessum tíðaranda og tileinka sér ýmsar tækninýjungar. Samstarf matvælaframleiðanda og verslana mætti styrkja, enda þekkja verslanir vel til þarfa sinna viðskiptavina. Þá þarf að huga að þætti fræðslu og áhrifum samfélagsmiðla sér í lagi á ungu kynslóðina. Efla þarf hráefnisþekkingu og sjálfbærnihugsun meðal barna og ungmenna. Í kjölfar aukins áhuga á kolefnisspori matvæla hefur Efla sett upp reiknivél sem nálgast má á Matarsporid.is en aðgangur er veittur í gegnum áskrift.

Gallup hefur gert neyslukannanir í 12 ár og þrátt fyrir mikla fjölmiðlaumræðu um vegan kemur í ljós að aðeins 0,9% eru vegan þó að 30% segjast kaupa vegan vörur samhliða hefðbundnum matvörum. Þeim fjölgar verulega sem vilja borga meira fyrir umhverfisvænar vörur og hlutfall Íslendinga sem borðar aldrei kjöt hefur vaxið lítillega á síðustu 10 árum, einkum í hópi kvenna á aldrinum 18-24 ára.

Við eigum að nýta jarðvarmann meira og betur í matvælaframleiðslu ef við viljum fylgja sjálfbæru matvælakerfi þar sem við Íslendingar eigum ýmis sóknarfæri. Var þar meðal annars tilgreind framleiðsla á verðmætum tegundum grænmetis og ávaxta, fiskeldis á landi og þörungarræktun.

Tryggja þarf fæðuöryggi og huga þurfi að framleiðslukerfi nærri þéttbýli, lóðrétt inniræktun plantna (vertical farming) og framleiðslu á próteingjöfum sem ekki eru hluti af hefðbundnum búskap í dag. stórskala ylrækt og þörungaræktun voru enn nefnd til. Erfðaauðlindir, jarðvegur og vatn eru undirstaða fæðuframleiðslu og gera spár ráð fyrir að árið 2050 þurfi að framleiða um 70% meiri mat en gert er í dag. Nýta þarf betur afurðir og landsvæði sem kallar á breyttar aðstæður í landbúnaði. Til að mynda ætti að leggja meiri áherslu á kornrækt til manneldis ekki bara í fóður. Matvælaframleiðsla í heiminum byggir á 5 tegundum dýra og 12 korntegundum. Hægt er að nýta 35 dýrategundir og þúsundir plöntutegunda. Kynbætur á plöntum og grænmeti ætti að skoða málefnalega.

Upptökur frá ráðstefnunni:

Þið getið skoðað tenglana hér á bondi.is: http://www.bondi.is/frettir-og-tilkynningar/radstefna-um-neyslubreytingar-og-matvaelaframleidslu—myndbond/2746

Sérstök vefsíða: http://hafur.bondi.is/radstefnur/matvaelalandid-2019b/

Síða með einstökum tenglum:  http://hafur.bondi.is/radstefnur/matvaelalandid-2019b/simple.html