Scroll To

Útlitsgallað grænmeti í fjölnota grunn

 

Með því að nota útlitsgallaðar gulrætur og tómata í grænmetisgrunn undir vörumerkinu Ugly komust nemar í matvælafræði við Háskóla Íslands í evrópska nýsköpunarkeppni í London á dögunum. Hildur Inga Sveinsdóttir, doktorsnemi í matvælafræði við Háskóla Íslands, Málfríður Bjarnadóttir, sem lauk meistaraprófi í matvælafræði í vor, og Margrét Arna Vilhjálmsdóttir, nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands standa að verkefninu til að berjast gegn matarsóun hérlendis.

Nýsköpunarkeppnin sem þær tóku þátt í nefnist Ecotrophelia  og er um þróun á nýjum vistvænum matvælum. Áður höfðu þær tekið þátt í innlendri nýsköpunarkeppni en grænmetisgrunninn Ugly er til dæmis hægt að nota í súpur, sósur og ídýfur. Með nafninu vilja stöllurnar vísa til þess og vekja athygli á að þær séu að nýta ljótt grænmeti. Næst á dagskrá er að þróa grunninn enn frekar og kanna mögulega samstarfsaðila.