Scroll To

Velgengni og súkkulaðisæla á Grandanum

Vöxtur súkkulaðiverksmiðjunnar Omnom hefur verið ævintýralegur allt frá upphafi þegar æskufélagarnir Kjartan Gíslason og Óskar Þórðarson létu hugmynd sína um súkkulaðigerð verða að veruleika. Forvitnin rak þá áfram og í dag starfa um 20 manns hjá fyrirtækinu sem framleiðir um 30 tonn af súkkulaðiplötum á ári.

„Það eru sex ár síðan við fórum af stað með þetta tilraunaverkefni sem vatt ansi fljótt upp á sig. Það liðu aðeins níu mánuðir frá því að hugmyndin var mótuð og þar til við komum fyrstu framleiðslunni á markað hjá vinum okkar á kaffihúsinu Reykjavík Roasters og sú sending kláraðist fljótt. Við byrjuðum í gamalli bensínstöð úti á Seltjarnarnesi en erum núna komin í stærra húsnæði út á Hólmaslóð þar sem við erum með súkkulaðiverslun ásamt –skóla og við bjóðum fólki upp á að koma í klukkustundarskoðunarferð um salarkynni fyrirtækisins. Á þessu ári hafa komið um 2500 manns í slíkar skoðunarferðir og eru það mest ferðamenn sem nýta sér þær,“ segir Kjartan.

Um 300% aukning í Bandaríkjunum

Fyrir tveimur árum kom fjárfestingarsjóður með fjármagn inn í fyrirtækið og mikla kunnáttu að sögn Kjartans sem þeir hafa lært mikið á.
„Við höfum öðlast meiri og betri kunnáttu á ýmsum sviðum við að fá inn fjárfestingarsjóðinn sem hefur aðallega fjárfest í sjálfbærri matvælaframleiðslu, snyrtivörum og orku svo fátt eitt sé nefnt. Þar hafa þeir komið sterkt inn í okkar hugmyndafræði með því til dæmis að velja Fairtrade-hráefni og þannig styðja við og byggja upp þá framleiðendur sem við verslum af en einnig að einblína á gæði,“ útskýrir Kjartan og segir jafnframt:
„Það hefur verið um 40-50% aukning milli ára í sölu hjá okkur en á síðasta ári var til dæmis 300% aukning í Bandaríkjunum sem er framar öllum væntingum. Um 80% framleiðslunnar seljum við á Íslandi en 20% fara að mestu á Ameríkumarkað en þó eitthvað líka til Evrópu og Asíu. Við höfum verið mjög heppnir með viðskiptavini því þeir hafa mikið til fundið okkur til dæmis í gegnum samfélagsmiðla sem eru okkur mjög mikilvægir. Þessi fljóta velgengni hefur komið okkur á óvart en þetta hefur tekið tíma og hefur ekki endilega alltaf verið auðvelt. Það koma tímar sem geta tekið á eins og þegar við stækkuðum en annars erum við ánægðir og hrærðir yfir árangrinum.“