Scroll To Vannýtt hráefni

Viðskiptatækifæri í vannýttum matvælum?

Við Íslendingar búum yfir frumkvöðlahjarta sem nýta þarf betur til að skapa verðmæti úr vannýttum matvælum og gjöfulli náttúru. Þannig má sporna gegn matarsóun og ýta undir viðskiptatækifæri sem ratar upp í munn og niður í maga.

Til að vekja athygli á þessu kallar Matarauður Íslands eftir hugmyndum frá neytendum og framleiðendum, ungum sem öldnum. Þessar hugmyndir munu samstarfsaðilar okkar, Hótel- og matvælaskólinn, nota við gerð smárétta og hnossgætis á vorönn 2020. Þann 1. janúar 2020 verður lokað fyrir skráningu nýrra hugmynda.

Til að taka þátt er farið inn á https://mataraudur.is/uppskriftir-2019/  Þar er líka að finna uppskriftir að 10 hnossgætum sem voru sköpuð úr vannýttum hráefnum síðasta vor og hvetjum við alla til að kjósa það sem þeim líst best á.

Kennarar og nemendur við Hótel- og matvælaskólann munu velja þrjár innsendar hugmyndir um vannýtt hráefni og bjóða höfundum þeirra í spjall um mögulegar útfærslur ásamt viðtali við vöruhönnuð. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem langar að þróa viðskiptahugmynd eða bara kynnast sköpunarkrafti matreiðslumeistara og hönnuða.

Alls er þriðjungi framleiddra matvæla sóað. Það er sorgleg staðreynd í ljósi neikvæðra umhverfisáhrifa og þegar hugsað er til þess að 1.3-3% landsmanna búa við sára fátækt samkvæmt velferðavakt íslenskra stjórnvalda.

Við höfum áður leitað til landsmanna eftir hugmyndum og óhætt að segja að þjóðin býr yfir mikilli hugmyndaauðgi sem ýmist leitar fanga í gamlar hefðir eða samtímaútfærslur á matargerð.