Myndbandið sýnir stemmninguna á uppskeruhátíðinni okkar vorið 2019 í Granda Mathöll

Við Íslendingar búum yfir frumkvöðlahjarta sem nýta þarf betur til að skapa verðmæti úr vannýttum matvælum og gjöfulli náttúru. Þannig má sporna gegn matarsóun og ýta undir viðskiptatækifæri sem ratar upp í munn og niður í maga. Það er sameiginleg vegferð okkar allra að efla þekkingu og vöruþróun á vannýttum hráefnum sem oft eru ódýr, auka fjölbreytileika og styrkja matarmenningu.

Hér á eftir eru nokkrar uppskriftir úr vannýttum hráefnum sem eru skapaðar af nemendum Hótel- og matvælaskólans.  Margar eru framandi, aðrar flóknar en þarna á milli eru líka frábærar einfaldar hugmyndir fyrir alla að spreyta sig á. Flestar hugmyndir að vannýttum hráefnum fengum við frá almenningi.  Finna má svo allar uppskriftir frá hugmyndasamkeppni Þjóðlegra rétta 2018 og Vannýttra hráefna 2019 og 2020  undir hnappnum sem er undir forsíðumyndinni hér fyrir ofan.

Við fengum ansi margar góðar ábendingar í ár og auk þeirra sem sjást í uppskriftunum hér að neðan voru til dæmis júgur, gimbrapíkur, gaddakrabbar, þorskmagar, hákarlabrjósk, Þingvallamurta,elfting, arfi, njóli, krækiberjaskinn, lúpína,villtar plönturætur, söl og ábrystir. Ennfremur að nýta betur brauðafganga t.s. í mylsnu, brauðteninga eða bjór.

Það er gaman að segja frá því að Hótel- og matvælaskólinn hefur verið að þróa nýja námsgrein í kringum samvinnuna við Matarauð og munu halda áfram að halda á lofti skapandi nýtingu á íslenskum hráefnum með það að markmiði búa til hnossgæti og taka neytendur í menningarlegt matarferðalag.

Við héldum í sameiningu uppskeruhátíð 2018 og 2019 og leyfðum gestum og gangandi að smakka afraksturinn. Til stóð að vera með samskonar viðburð árið 2020 á Bessastöðum í samvinnu við Elízu Ried forsetafrú en þá kom COVID-19 og allt fór á bið…

Nokkrar umfjallanir 2019: Forsetaembættið, Veitingageirinn, Bændablaðið, Fréttablaðið, Kjarninn

Myndband 2018: Nemendur og dómnefnd 

Nokkrar umfjallanir 2018: Vísir.is, Viðskiptablaðið,  Mbl.is, Bæjar- og menningarvefur Sauðárkróks, RÚV,  Bæjarins besta BændablaðiðForsetaembættið