Scroll To

Matarauður er stoltur bakhjarl Samtaka smáframleiðanda matvæla

Matarauður Íslands er stoltur bakhjarl Samtaka smáframleiðanda matvæla ásamt Samtökum iðnaðarins. Aðrir styrktaraðilar eru m.a. Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi, Landbúnaðarklasinn og verslunin Krónan. Fjármagnið frá Matarauði er m.a. til að standa undir kostnaði vegna handleiðslu og þekkingarmiðlunar árið 2020. Hlutverk Samtaka smáframleiðanda matvæla er að nýta framlagið til að tryggja að samtökin nái fótfestu og fjárhagslegu sjálfstæði til framtíðar.

Stofnun regnhlífarsamtaka smáframleiðenda matvæla, matarfrumkvöðla og bænda sem vilja selja beint frá býli eru merkileg tímamót þar sem hagsmunir þessara aðila fá í fyrsta sinn sameiginlega rödd og verðuga viðurkenningu þar sem unnið verður að brautargengi matarauðsins okkar, nýsköpunar og varðveislu íslenskrar matarmenningar.

Matarauður Íslands hefur unnið talsvert með smáframleiðendum matvæla og matarfrumkvöðlum og fagnar því að áfram verður hlúð að þessum dýrmæta hlekki í virðiskeðju matvæla þegar starfi Matarauðs lýkur. Mikil vakning hefur orðið á síðustu árum um þau verðmæti sem liggja í fjölbreyttari nýtingu íslenskra hráefna, mat í ferðaþjónustu og aukinni nærsamfélagsneyslu. Þannig skapast tenging við sögu og menningu og dyr opnast fyrir ný atvinnutækifæri.

Markmið samtakanna er að stuðla að öflugra samstarfi og auknum samtakamætti smáframleiðenda matvæla um land allt. Stuðla að kraftmikilli nýsköpun og fjölbreyttu úrvali hágæða matvæla þar sem áhersla er á notkun innlendra hráefna, aukinn fjölbreytileika og verðmætasköpun, þróun nýrra og verðmætari vara og þjónustu úr vannýttum hráefnum, draga úr kolefnisspori, auka sjálfbærni og fjölga atvinnutækifærum.

Tilgangur samtakanna er að vinna að hagsmunamálum smáframleiðenda á öllum sviðum, vera málsvari þeirra og stuðla að framförum í málefnum sem þá varða, þar með talið er varðar vöxt og aðgengi að mörkuðum, lágmörkun kolefnisspors og samfélagslegum áhrifum starfsemi þeirra. Koma sjónarmiðum og hagsmunamálum félagsmanna á framfæri, vinna að því að starfsumhverfi og löggjöf utan um smáframleiðendur gefi þeim færi á að blómstra, leiðbeina félagsmönnum varðandi ráðgjöf og stuðning, skipuleggja viðburði, kynna félagsmenn og það úrval sem í boði er.

Nú þegar hafa um 80 einstaklingar og lögaðilar skráð sig í samtökin – annað hvort með fulla aðild eða aukaaðild – og stöðugt bætist við. Aðildargjaldið er 10.000 kr. fyrir fulla aðild og 5.000 kr. fyrir aukaaðild. Full aðild að samtökunum felur í sér aðild að Samtökum iðnaðarins (SI) sem heyra undir Samtök atvinnulífsins (SA). Viðskiptastjóri framleiðslusviðs SI fer með málefni samtakanna. Aukaaðild er fyrir þá sem styðja markmið samtakanna en uppfylla ekki þau skilyrði að vera smáframleiðandi, en vilja sýna stuðning sinn í verki.

Framkvæmdastjóri samtakanna er Oddný Anna Björnsdóttir, bóndi á Gautastöðum í Berufirði en í stjórn sitja Karen Jónsdóttir formaður; Kaja organic ehf, Guðný Harðardóttir; sauðfjárbóndi og stofnandi Breiðdalsbita, Svava HrönnGuðmundsdóttir; Sælkerasinnep Svövu, Þórhildur M. Jónsdóttir; kokkhús og Vörusmiðja BioPol og Þröstur Heiðar Erlingsson; sauðfjár- og kúabóndi, Birkihlið kjötvinnsla. Varamenn eru Auður B. Ólafsdóttir í Pönnukökuvagninum og Ólafur Loftsson hjá Súrkál fyrir sælkera.

Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri og Karen Jónsdóttir formaður

Áhugasamir geta sent póst á [email protected]

Samtökin eru með hóp á Facebook sem heitir samtök smáframleiðanda matvæla

Matarauður og Bændasamtök Íslands stuðluðu að stofnun REKO-hringja um land allt þar sem bændur, matarfrumkvöðlar og smáframleiðendur selja sínar afurðir milliliðalaust. Hugmyndin er byggð á finnskri verðlaunafyrirmynd og hefur náð fótfestu á flestum Norðurlöndum. Bendum áhugasömum á REKO-hópa á facebook. Starfandi REKO hópar eru: REKO Reykjavík, REKO Vesturland, REKO Austurland, REKO Suðurland, REKO sunnanverðir Vestfirðir og REKO Norðurland.

Hvað er REKO?