Megin tilgangur Matarauðs Íslands var annars vegar að draga fram sérstöðu íslensks hráefnis og matarmenningar til að auka þekkingu okkar og styrkja ímynd Íslands sem mataráfangastað. Hins vegar að styrkja matartengd verkefni sem efla heildarhagsmuni byggða og verðmætasköpun í sátt við sjálfbæra þróun. Um var að ræða tímabundið verkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem lauk í desember 2020. Innihald vefsíðunnar verður áfram aðgengileg eftir þann tíma enda hafsjór af fróðleik sem öllum er heimilt að nýta sér. Vefnum er haldið við af Gleipni nýsköpunar- og þróunarsetri á Vesturlandi.

Við njótum þeirrar gæfu að búa við matarauð sem byggir á dýrmætri frumkvöðlahefð sem gengið hefur kynslóða á milli. Markmið Matarauðs Íslands er að nýta matarauðinn okkar sem sóknarfæri til frekari verðmætasköpunar innanlands í tengslum við matarferðaþjónustu og vöruþróun ásamt því að efla þekkingu og áhuga á hráefnum og menningu sem styrkir sjálfsmynd okkar sem matvælaþjóð.

Ætlunin er að draga Íslendinga og erlenda gesti að hlaðborði íslenskra krása, upplýsa um hreinleika þeirra og tefla fram sögu Íslendinga sem birtist í matarmenningu og hefðum. Matarhefðir, rétt eins og tungumál og trúarbrögð, spegla sérkenni hverrar þjóðar og eru samofin náttúru og tíðarfari. Þessi hefð í bland við aukna þekkingu og skapandi hugsun hefur leitt af sér úrval matar á heimsmælikvarða.

Bæklingur um Matarauð Íslands – Okkur að góðu

Samantekt um starfsemi og verkefni Matarauðs

Takk

Matarauður og upplifun

Takk

Matarauður Íslands vill þakka þeim sem veittu innblástur við gerð textans undir Bragð & arfur. Sótt var í smiðju Gísla Egils Hrafnssonar, Ingu Elsu Bergþórsdóttur, Guðrúnar Hallgrímsdóttur, Hallgerðar Gísladóttur, Laufeyjar Haraldsdóttur og Arnars D. Jónssonar.

Flestar myndanna sem prýða vefinn eru frá Gísla Agli Hrafnssyni og Jessicu Vogelsang.

Ætlunin er að þróa vefinn í takt við ábendingar og í samvinnu við þá sem vilja hefja orðræðu um íslenskt hráefni, matargerð og menningu til vegs og virðingar.

Verði okkur að góðu!