Landshlutar
Á síðustu árum hefur matarferðaþjónusta víða um heim rutt sér til rúms og mikil vakning orðið um sælkera-matargerðarlist, svæðisbundin matvæli og menningu.
Áfangastaðir sem hafa byggt upp matarferðaþjónustu nefna ýmsa ávinninga eins og aukin atvinnutækifæri og uppbyggingu í héraði, lengingu ferðamannatímabils og auknar tekjur bæði vegna neyslu innanlands og eftirspurnar erlendis. Þá stuðlar matarferðaþjónusta að varðveislu matarmenningararfleifðar.
Í vaxandi mæli kjósa ferðamenn að tengjast nánar þeim stöðum sem þeir heimsækja umfram það að skoða einungis landslag eða markverð mannvirki. Matarferðaþjónusta felur í sér upplifun ákveðins staðar eða svæðis í gegnum neyslu á svæðisbundnum mat og drykk. Dregin eru fram hráefni og framleiðslu- aðferðir sem tíðkast á svæðinu og skapa því sérstöðu. Veitingastaðir leggja metnað í að þróa rétti úr staðbundnum afurðum og er matarferðaþjónusta gjarnan hluti af menningar- og afþreyingarferðaþjónustu. Við þurfum að vera duglegri að upplýsa um uppruna hráefnisins á veitingastöðum og hefur Matarauður Íslands áhuga að vinna með þeim sem eru í veitingaþjónustu um merkingar og matarsögu landssvæða. Í skilningi Matarauðs Íslands snýst matarferðaþjónusta bæði um Íslendinga og erlenda ferðamenn.
Talsverðir hagsmunir eru í húfi að byggja upp orðspor og eftirspurn eftir svæðisbundnum mat og drykk um land allt. Það þarf að samhæfa skilaboðin og styrkja svæðisbundna þekkingu með það að markmiði að efla umbætur og vöruþróun sem skila sér í auknum tekjum og atvinnutækifærum um land allt í tengslum við matarauðinn okkar.
Stutt samantekt um landssvæði
Höfuðborgarsvæðið
Vissir þú að fyrstu gróðurhúsin sem voru reist hérlendis voru í Mosfellssveit og eitt stærsta mjólkurbú landsins var á Korpúlfsstöðum. Að í Viðey var rekið brugghús og að Skúli fógeti flutti kúmen til Viðeyjar, frá Hlíðarenda. Í gegnum Reykjavík rennur laxveiðiá og er í dag eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og lögskilarétt! Þá var fyrsti pylsuvagninn settur upp í Austurstræti 1937.Í Reykjavík er að finna gnótt veitingastaða, hægt að panta leiðsögn í matarupplifun og fjöldi sælkeraverslana eykst ár frá ári. Matarmarkaðir og matarhátíðir setja ennfremur svip sinn á borgina.
Vesturland
Vesturland er víðfeðmt og hefur fjölbreytt landslag sem speglar matarmenningu svæðisins. Breiðafjarðareyjar eru mikil matarkista þar sem sjósókn og hlunnindanýting hefur farið saman um langan aldur. Fiskurinn, selurinn, hvalurinn og fuglinn hefur verið snar þáttur í lífi íbúa. Einnig er nýting sjávargróðurs eins og þara og þangs kunn og skelfiskur ýmiss konar nýttur sérstaklega á síðari árum. Vesturland er einnig þekkt fyrir gjöfular lax- og bleikjuveiðiár. Þá eru Dalirnir kunnir fyrir framleiðslu mjólkurafurða og eru sannkallað ostahérað Íslands. Einn stærsti geitfjárræktandinn er á Vesturlandi. Vodki, Brennivín og bjór er jafnframt framleiddur á Vesturlandi fyrir þyrsta aðdáendur. Síðast en ekki síst er Snæfellsnesið með umhverfisvottun Earth Check þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra þróun.
Vestfirðir
Vissir þú að áður fyrr voru hákarlastappa, hanginn hvalur, hrognaystingur og magálar algengir réttir á Vestfjörðum og að vindhangið rafabelti var gjarnan borðað á nýársnótt? Þar bjó líka fyrsti frumkvöðullinn í ræktun matjurta, í Sauðlauksdal. Látrabjarg, stærsta fuglabjarg Evrópu, með sínar milljónir sjófugla hefur verið matarkista vestfirðinga um aldir. Nálægð Vestfjarða við gjöful fiskimið og svo skortur á undirlendi til landbúnaðar hafa mótað hefðir og venjur þar. Í dag hefur fiskeldi bæst við og er vaxandi atvinnugrein. Neysla kæstrar skötu var lengi vel bundin við Vestfirði og þar tíðkast að borða mörflot með. Skötustappa soðin í hangikjötssoði þótti ennfremur sælgæti.
Norðurland
Á Norðurlandi var í gamla daga algengt að borða baunastöppu með smjöri og grasaysting. Grasamjólk, flóuð mjólk með fjallagrösum, þótti allra meina bót. Hákarlastappa var einnig algeng fyrir norðan og þótti hnossgæti. Skagfirðingar eru þekktir fyrir hrossarækt og Mývetningar fyrir kæst egg og silungsnytjar. Að skera út laufabrauð er jafnframt norðlenskur siður sem breiðst hefur út um land sem hluti af jólaundirbúningi. Gjöful fiskimið og vatnafiskar hafa einkennt matarsögu Norðlendinga. Þeir hafa skapað ser gott orð fyrir reykingu hvort heldur á fiski eða kjöti. Landbúnaður er svæðinu mikilvægur og ræktun grænmetis í gróðurhúsum er stundaður þar sem jarðhita nýtur.
Austurland
Sérstaða Austfjarða í mat liggja meðal annars í hreindýrum, humri og villisveppum. Mikið frumkvöðlastarf hefur ennfremur verið unnið í lífrænni ræktun á Héraði. Þaðan er t.d. hægt að fá dýrindis repjuólíu til matargerðar. Á Austfjörðum er að sjálfsögðu að finna sauðfé og ferskan fisk auk mjólkurafurða í hæsta gæðaflokki. Djúpavogshreppur er hluti af Cittaslow hreyfingunni sem m.a. leggur áherslu á eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu. Á Seyðisfirði er að finna sushi-veitingastað sem er á lista White Guide Nordic.
Suðurland
Vissir þú að á Suðurlandi var fýllinn eitt sinn notaður sem gjaldmiðill fyrir fóðrun sauðfjár? Þar var bakað arfabrauð og magálar borðaðir með skyri. Í dag er öldin önnur og er Suðurlandsundirlendið með sinn frjósama jarðveg og hagstætt veðurfar einn helsti miðpunktur matvælaframleiðslu á Íslandi. Mjólkurafurðir eru í öndvegi en stærsta mjólkursamlag landsins er á Selfossi. Nýting jarðhita til matvælaframleiðslu er svæðinu mikilvæg. Sjálfbær ræktun grænmetis í upphituðum og upplýstum gróðurhúsum allan ársins hring vekur athygli. Á Suðurlandi er ennfremur umfangsmikil sveppa-, kartöflu-, og kornrækt. Þaðan kemur líka fyrirtaks hunang og repjuolía svo eitthvað sé nefnt.
Reykjanes
Vissir þú að á Reykjanesi er að finna landeldisstöð fyrir Senegalflúru sem er einn verðmætasti matfiskur í heiminum? Þar er gott að tína söl og jarðvarminn nýttur við matvælaframleiðslu. Þar er GEO-Park og hægt að fá mat vottaðan sem GEO-food.