Vesturland

Scroll To longufjorur. markaðsstofa Vesturlands

Vesturland er víðfeðmt og hefur fjölbreytt landslag.  Í dag er Snæfellsnesið með umhverfisvottun Earth Check þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra þróun. Breiðafjarðareyjar eru mikil matarkista þar sem sjósókn og hlunnindanýting hefur farið saman um langan aldur. Fiskurinn, selurinn, hvalurinn og fuglinn hefur verið snar þáttur í lífi íbúa. Einnig er nýting sjávargróðurs kunn um aldir og skelfiskur ýmisskonar verið nýttur sérstaklega á síðari árum. Um kræklingasúpu er haft eftir húsmóður á Mýrum fyrr á öldum að hún sé margreynt ráð við svefnleysi.

Kjöt og mjólkurafurðir
Borgarfjörður er kunnur fyrir öflugan landbúnað og sínar gjöfulu laxveiðiár. Í Dölunum er framleiðsla mjólkurafurða einkennandi, einkum osta og segja má að þar sé ostahérað Íslands. Dalaostarnir eru flestum Íslendingum kunnir. Nýsköpun í vinnslu osta, skyrs og íss beint frá býli er líka að finna hjá bændum eins og á Erpsstöðum. Á Vesturlandi er einnig að finna stærsta geitfjárræktarbúið þaðan sem ýmsar nytjar eins og geitaostur eru framleiddar.

Lundi
Hlunnindi við Breiðafjörð eru fjölbreyttari en víðast hvar annars staðar á landinu. Lundinn var mikil búbót, unginn kallaðist kofa og lundaveiðin kofnafar. Lundinn var reyttur, saltaður og reyktur. Úr nýjum fugli var soðin kofnasúpa ásamt nýuppteknum kartöflum, krydduð með skarfakáli og súru. Þorleifur Þorleifsson læknir í Bjarnarhöfn ráðlagði þeim sem ekki varð gott af nýmetinu að sjóða kál og kartöflur með kjötinu.

Hákarl
Á Bjarnarhöfn er hákarlasafn en hákarlsverkun hefur verið í fjölskyldunni í margar kynslóðir. Yngri kynslóðinni hugnast ekki vel hákarlinn en hann þykir þó ómissandi í Þorrablótum. Kæstur hákarl var skráður hjá Slow food samtökunum í Bragðörkina sem er listi yfir þjóðlegar afurðir sem eiga á hættu að hverfa í hraða hversdagsins.

Selur
Selurinn skipti sköpum í mataræði íbúa áður fyrr og var hann gjörnýttur. Landselskópar voru veiddir í net á vorin en útselskópar um miðjan október. Spikið var brytjað niður í tunnur og saltað eða brætt í lýsi og notað bæði sem ljósmeti og viðbit. Kjötið var borðað nýtt, saltað og reykt og á seinni tímum gjarnan glóðarsteikt. Í dag er fáttítt að selkjöt sé nýtt til matar.

Sjósókn
Enginn þorskur var veiddur um innanverðan Breiðafjörð, til þess fóru menn á vertið á Snæfellsnes eða í útsker. Snæfellsnes hefur verið miðstöð sjósóknar um aldir og má þar finna leifar gamalla verstöðva víða. Ýsan var hinsvegar veidd og þykir betri þaðan en annars staðar vegna hagstæðs botnlags í firðinum. Hrognkelsin voru veidd með sting á fjöru. Rauðmaginn var snæddur ferskur eða reyktur, fersk grásleppa var steikt tvisvar til að ná úr henni vatninu og hún var einnig látin síga. Flyðra var veidd og af henni gerð fiskisúpa. Á Breiðafjarðareyjum voru búin til svokölluð búahrogn sem eru hrognaostur og á Hellnum var til siðs að búa til gotupönnukökur sem voru meðal annars úr hrognum.

Þari og þang
Áður og fyrr var farið í sölvafjöru um stórstraum og sölin breidd út og látin rigna til að afvatnast en síðan þurrkuð og borðuð með smjöri. Í Reykhólahreppi er starfrækt þörungaverksmiðja og er vaxandi áhugi á nýtingu þara og þangs til manneldis. Talsverð lífvirk efni er í þangi og þörungum sem gerir það að verkum að þau eru nýtt í heilsuvörur. Fjörubeit sauðfjár við Breiðafjörð  þykir gefa sérstakt og eftirsóknarvert bragð.

Drykkir
Í Borgarnesi er íslenska brennivínið framleitt, þar er einnig vodka framleiðsla og finna má brugghús sem framleiða bjór sem vekur athygli út fyrir landsteinana.

Líkt og víða annarsstaðar á landinu má sjá ný og frumleg veitingahús spretta upp.Sjá nánar um matarupplifun á Visit West Iceland  og Matarauður Vesturlands

SVÆÐISBUNDIN HRÁEFNI, MATARGERÐ OG MATARHEFÐIR