Höfuðborgarsvæðið

Scroll To Reykjavik aurora borealis

Samkvæmt Íslendingabók nam Ingólfur Arnarson allt suðvesturhorn landsins og byggði bæ sinn í Reykjavík. Með tíð og tíma byggðust fleiri bæir í kring og árið 1786 fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi. Í gegnum Reykjavík rennur laxveiðiá, Elliðaárnar og er það einstakt fyrir höfuðborg að geta hampað slíkri náttúruauðlind.

Árið 1226 hófst byggð í Viðey þegar munkar af Ágústínusarreglunni stofnuðu þar klaustur og um miðja 16. öld var þar rekið brugghús. Í dag er rekið myndarlegt veitingahús í Viðey. Kúmen er jurt af sveipjurtaætt og er notað sem krydd í brennivín og bakstur. Það vex villt á Íslandi, meðal annars í Viðey. Skúli fógeti flutti kúmen til Viðeyjar, hann mun hafa sótt það austur að Hlíðarenda, en Gísli Magnússon, sýslumaður þar, einn af fyrstu íslensku náttúrufræðingunum, mun hafa flutt plöntuna til Íslands um 100 árum áður en Skúli settist að í Viðey, það er um 1760. Á haustin er oft farið í ferðir út í Viðey til að tína kúmen.

Skólagarðar, stærsta mjólkurbúið og fjáreigendur
Fyrstu gróðurhúsin voru reist hér á landi á Reykjum í Mosfellssveit árið 1923. Skólagarðar hafa verið starfræktir á höfuðborgarsvæðinu til margra ára og eru þeir ætlaðir börnum til unglingsaldurs. Þar fá börnin útsæði, plöntur og fræ ásamt leiðsögn við ræktun algengustu matjurta undir handleiðslu leiðbeinenda. Í Reykjavík hafa garðarnir einnig verið nýttir sem matjurtagarðar fyrir fjölskyldur.

Á árunum 1929-1934 var stærsta mjólkurbú landsins rekið á Korpúlfsstöðum í Grafarvogi. Thor Jensen stofnaði og byggði upp mjólkurbúið. Hann réði meðal annars danska mjólkurfræðinga til að ná framúrskarandi árangri í mjólkurframleiðslunni. Korpúlfsstaðir urðu stærsta mjólkurbú landsins og sá langstærstum hluta Reykjavíkur fyrir mjólk. Aðrir mjólkurframleiðendur komust ekki með tærnar þar sem mjólkurbúið við bæjardyr Reykjavíkur hafði hælana í hreinlæti, gæðum og magni.

Reykjavík er eina höfuðborgin í heiminum með fjárhúsahverfi, afrétt og lögskilarétt. Liðin eru 90 ár síðan sauðfjárbændur í Reykjavík, bæði á lögbýlum og utan þeirra, stofnuðu fyrsta félag fjáreigenda í þéttbýli hér á landi, Fjáreigendafélag Reykjavíkur. Allar götur síðan hefur verið mikil virkni félagsmanna í félaginu. Í skýrslu um matarstefnu Reykjavíkurborgar kemur fram að innan borgarmarka eru stór svína- og kjúklingabú auk sláturhúsa. Þá eru þrjár ræktunarstöðvar þar af ein sem framleiðir grænmeti og krydd auk reita undir fjölbreytta ræktunarstarfsemi við Stekkjarbakka. Það er ekki langt síðan að samþykkt var að veita leyfi sem liðkaði fyrir frístundarækt hænsna í einkagörðum þó slíkt sé ekki algengt. Þá eru nokkrir býflugnaræktendur sem starfa innan borgarmarka. Borgin hefur einnig rekið svokallaða grenndargarða þar sem fjölskyldur og félagasamtök geta leigt ræktunarreiti undir matjurtir.

Matarhefðum haldið á lofti
Veitingamaðurinn Úlfar Eysteinsson á Þremur Frökkum og Rúnar Marvinsson eru hvað þekkttastir fyrir að vera fyrstu kokkarnir til að halda varðveislu íslenskra matarhefða á lofti. Í kjölfarið hafa margir matreiðslumenn bæst við þar sem íslensku hráefni og hefðum er teflt fram og fært í nútímabúning. Ný norræna eldhúsið var kynnt til sögunnar árið 2009 af Gunnari Karli Gíslasyni. Þar er lögð áhersla á hreinan mat, árstíðir og nýtingu hráefna úr nærsamfélagi.

Um áraraðir hafa Samtök selabænda staðið fyrir selaveislum í tengslum við aðalfund sinn og Æðarræktarfélags Íslands og komast færri að en vilja. Veislan er jafnan haldin á höfuðborgarsvæðinu. Það er þó fleira en nýtt, reykt og saltað selkjöt, súrsaðir selshreifar, útselskópasulta, sjófugl, hreindýr og heiðagæs, sem boðið er upp á. Þar má líka fá siginn fisk, eldaðan að hætti matreiðslumeistara, útselskópaspik og það sem kallað er Vestfirðingur, það er siginn fiskur sem borðaður er með söltuðu selspiki. Einnig hefur verið boðið upp á grillaðar langreyðar-pipar-turnbautasteikur.

 

Ís, pylsa með öllu og Michelinstjarna
Það er óhætt að segja að við Íslendingar elskum ís og er urmull ísbúða á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að svala þeim þorsta, sama hvernig úti viðrar. Einnig eru pylsuvagnar vinsælir til að fá sér snarl og af öðrum ólöstuðum er óhætt að segja að Bæjarins bestu-pylsuvagninn í miðbænum hafi fengið mesta athygli slíkra vagna. Fyrsti vagn fyrirtækisins var settur upp í Austurstræti árið 1937 en fluttist síðar í Tryggvagötuna. Í ágúst árið 2004 kom fyrrum forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton við hjá Bæjarins bestu og gæddi sér á einni með öllu, sem vakti heimsathygli. Tveimur árum síðar kaus breska dagblaðið The Guardian Bæjarins bestu-pylsuvagninn í miðbænum þann besta í Evrópu.

Á höfuðborgarsvæðinu er að finna gnótt veitingastaða, Mathöll, Bændamarkaði (Bændur í bænum, Frú Laugu, Matarbúr Kaju & Matarmarkað Búrsins) og sælkeraverslanir. Þar er einnig að finna eina Michelinstjörnu veitingastað Íslands; Dill restaurant. Fjölmargir veitingastaðir eru ennfremur á lista White Guide Nordic. Sífellt fleiri veitingastaðir opna nú í Reykjavík sem leggja upp úr þjóðlegum hefðum með nútíma tvisti eins og Matur og drykkur, Nostra, Café Loki, Old Iceland og fleiri. Það er dásamlegt að kynnast borgum gegnum bragðlauka og hægt er að panta slíkar ferðir með úrvals matarleiðsögumönnum.

Í Reykjavík er fjöldi safna sem upplýsa um menningu og lífshætti Íslendinga. Sem dæmi má nefna Landnámssýningin, Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið Vík.

Sjá nánar um matarupplifun á Visit Reykjavík

SVÆÐISBUNDIN HRÁEFNI, MATARGERÐ OG MATARHEFÐIR