Norðurland

Scroll To Héðinsfjörður

Landslag á Norðurlandi einkennist af háreistum fjöllum, djúpum dölum, fjörðum og flóum. Fjöllóttir skagar ganga til norðurs og Norðurheimskautsbaugurinn liggur aðeins fáeina kílómetra frá nyrstu nesjum. Eldvirka beltið liggur um svæðið norðaustanvert og hefur mótað landslag þar. Þangað voru tunglfarar Bandaríkjamanna sendir til æfinga áður en til tunglferðarinnar kom. Landslag þar þótti svipa svo til yfirborðs tunglsins.

Gjöful fiskimið eru á Norðurlandi og hefur útgerð ýtt undir þéttbýlismyndun víða. Margar lax- og silungsveiðiár renna til sjávar á Norðurlandi og hefur vatnafiskurinn verið lífsbjörg um aldir. Spyrji maður fullorðna Mývetninga hvað hafi verið í matinn í æsku þeirra segja þeir: Silungur og aftur silungur. Siginn, saltaður og reyktur. Reyktur við tað, sprek og fjalldrapa. Á hótelinu í Reynihlíð hefur um alllangt skeið verið boðið upp á hverabrauð með reyktri Mývatnsreyð.

Landbúnaður er svæðinu mikilvægur og ræktun grænmetis í gróðurhúsum er stundaður þar sem jarðhita nýtur. Finna má fjölda matvælafyrirtækja á svæðinu og skipa þar mjólkurafurðir og kjötvinnsla stóran sess. Finna má fjölda sauðfjárbúa, kúabú og í Eyjafirði er rekið stórt og myndarlegt svínabú.

Villibráð hefur ávallt verið mikið nytjuð og finna má afbragðs berjalönd og jurtir sem eru nýttar til manneldis. Á Melrakkasléttu hefur dúntekja verið stunduð og þar er einnig að finna sveppi, smálubba, sem í dag eru seldir bæði þar og til veitingastaða í Reykjavík.

Reyking og laufabrauð
Þar sem landslag og atvinnuhættir eru fjölbreyttir þá kennir ýmissa grasa þegar kemur að mat og matarhefðum. Taðreyking á gamla mátann lifir góðu lífi á svæðinu. Gómsætur taðreyktur silungur eða lax bráðnar í munni sérstaklega ef hann er ofan á nýbökuðu hverabrauði. Engin almennileg jól eru heldur nema að taðreykt læri af veturgömlu sé á borðum.  Útskorið laufabrauð er meðal hinna sterku jólahefða og margir tengja við Norðurland. Hins vegar sýna heimildir að laufabrauð var alls ekki bundið Norðurlandi.

Hér áður og fyrr og eilítið í dag
Skagfirðingar eru þekktir fyrir hrossarækt en forðum var hrossakjöt ekki óalgengt á diskum Húnvetninga og Skagfirðinga. Til að heiðra gamlar hefðir hafa síðustu ár verið haldin Hrossablót á Hótel Varmahlíð á haustin þar sem hrossa- og folaldakjöt er í öndvegi.

Fyrir norðan var algengt að borða baunastöppu með smjöri og svokallaðan grasaysting. Fjallagrösin voru dagleg fæða, þau voru höfð í grauta, brauð og slátur. Grasaystingur var gjarnan hleyptur með slátursýru og etinn með mjólk, eða hleypt í osta með mysu.  Grasamjólkin, það er flóuð mjólk með fjallagrösum, þótti allra meina bót. Til að ná beiskjunni úr grösunum var sykur bræddur í potti, fjallagrösin látin út í og síðan mjólkin.  Stundum var natron sett út í pottinn til að ná remmunni úr grösunum.

Hákarlastappa var algengust norðanlands og þótti reglulegt sælgæti. í Húnavatnssýslu var réttur gerður úr grásleppuhrognum og kallaður stropi. Hrognin voru síuð og sett í strokk og síðan soðin við hægan eld. Lifur var sett saman við eftir smekk og þótti ágætis matur.

Eggjataka var mikil og eggin í Mývatnssveit voru geymd í ösku til vetrar langt fram eftir allri 20. öldinni, þótti sumum þau betri væru þau stropuð. Lyktin þegar þau sprungu við suðu er öllum ógleymanleg. Í Mývatnssveit og kannski víðar var til siðs að súrsa svið og lappir af fullorðnu fé og þótti herramannsmatur og margir minnast sperðlanna sem þeir fá hvergi lengur. Í þá var notað gollurshús, hálsbitar, þind og annað kjöt sem ekki er gert mikið með í dag. Kjötið var smátt skorið, saltað og troðið í garnir með hjálp járnhrings sem var til á hverjum bæ og sperðlarnir síðan reyktir.

Í Mývatnssveit var haldin hátíð fyrstu helgina í föstu, stúlkur fengu nýjar svuntur og piltar skyrtu. Á borðum voru bringukollar, siginn silungur og annað góðgæti og sátu allir til borðs. Þetta var tilhlökkunarefni rétt eins og jólin segja gamlir Mývetningar. Hvernig væri að endurvekja þessa hátíð?

Veitingastaðir á norðurlandi eru fjölmargir og með aukinni umferð ferðamanna fjölgar þeim óðum.Sjá nánar um matarupplifun á Visit North Iceland og Matarkista Skagafjarðar

Upplýsingar um bændamarkað á Hofsósi

SVÆÐISBUNDIN HRÁEFNI, MATARGERÐ OG MATARHEFÐIR