Austurland

Scroll To Hreindýr

Sérstaða Austfjarða í mat liggja meðal annars í hreindýrum, humri og villisveppum. Mikið frumkvöðlastarf var ennfremur unnið í lífrænni ræktun á Héraði. Þar er að sjálfsögðu að finna sauðfé og ferskan fisk auk mjólkurafurða í hæsta gæðaflokki. Djúpavogshreppur er hluti af Cittaslow hreyfingunni sem m.a. leggur áherslu á eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu.

Fjölbreytt landslag og matvæli
Austurland er fjölbreytt hvað landslag varðar þó hinir fjölmörgu firðir með sín hallandi jarðlög inn að miðju landsins setji nokkuð svip sinn á svæðið. Sauðjárrækt hefur alltaf verið mikilvæg og einnig útgerð frá hinum mörgu sjávarþorpum. Nálægðin við helstu humarmið hafa gefið Höfn í Hornafirði viðurnefnið; höfuðborg humarsins.

Sauðfé eru ekki einu grasbítarnir því um fjöll og firði renna hópar hreindýra, ein eftirsóttasta villibráðin. Hreindýrin á Íslandi eru afkomendur taminna norskra hreindýra en lifa sem villt í dag. Hugmynd um að flytja hreindýr til Íslands var líklega fyrst sett fram af Páli Vídalín í lok 17. aldar. Þrátt fyrir að ekkert yrði af innflutningi dýranna á þeim tíma lifði hugmyndin. Tæpri öld síðar voru fyrstu hreindýrin flutt til landsins samkvæmt konunglegri tilskipun og áttu dýrin að efla íslenskan landbúnað.

Á Héraði er ræktað lífrænt bygg til manneldis. Lífræn ræktun á í sjálfu sér ekki langa sögu á Íslandi eftir að búskaparhættir breyttust og fáir bændur hafa tileinkað sér hana með viðlíka árangri og Vallanesbúið á Fljótsdalshéraði. Bændur þar hafa unnið ötullega að þróun lífrænnar vörulínu og þaðan má fá repjuolíu til matargerðar. Þar er ennfremur umfangsmikil skógrækt. Bulsur eru íslenskar grænmetispylsur búnar til af ungum bændum með lífrænan búskap á Karlsstöðum nálægt Djúpavogi. Þær eru búnar til úr bankabyggi, baunum, mjöli og fræjum og án allra aukaefna.

Þjóðlegur og alþjóðlegur matur
Hallormstaðaskógur er stærsti skógur landsins og þegar sumri tekur að halla er skógarbotninn þakinn matsveppum ýmisskonar. Hafa veitingastaðir og sveppaáhugfólk gert sér góðan mat úr því.

Fjölmargir yfirburða veitingastaðir eru á Austurlandi, jafnvel á stöðum sem eru nokkuð úr alfaraleið. Hér má finna allskonar veitingastaði sem bjóða þjóðlegan íslenskan mat í torfbæ eða framandi sjávarréttaveitingahús staðsett niðri á fjörðunum. Á Seyðisfirði er sushi veitingastaður sem er á lista White Guide Nordic.

Sjá nánar um matarupplifun á Visit East Iceland

SVÆÐISBUNDIN HRÁEFNI, MATARGERÐ OG MATARHEFÐIR