Reykjanes

Scroll To Reykjanes

Sjávarfang og fjörunytjar einkenna matarhefð Reykjanesskaga. Reykjanesskaginn er þakinn eldbrunnum hraunum og umlukinn sjó. Þar gengur Mið-Atlantshafshryggurinn á land og er allt landslag mótað af fornum ummerkjum eldvirkni en einnig eru hraun sem runnið hafa á sögulegum tíma. Rík hefð er fyrir sjósókn á Reykjanesskaga enda hefur hann verið verstöð um aldir. Margir útvegsbændur höfðu þó fjárbúskap samhliða útveginum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða tók á miðaldir urðu fiskveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna en landbúnaður óverulegur enda ekki mikill gróður og undirlendi til ræktunar.

Matvæli og flóra veitingastaða á Reykjanesskaga
Í Herdísarvík má finna söl og annan þara sem gómsætt er að elda úr og á skaganum er einnig saltframleiðsla sem framleiðir sjávar- og jarðsalt. Á Reykjanesi er að auki landeldisstöð fyrir Senegalflúru sem er einn verðmætasti matfiskur í heiminum og er fiskurinn seldur úr landi. Margar fiskþurrkanir má sjá við Reykjanesskagann en nýting jarðhita til þurrkunar fiskafurða hófst árið 1990. Nú eru tvö fyrirtæki sem sérhæfa sig í þurrkun fiskafurða og nýta jarðhitann til þess. Innan Auðlindagarðsins á Reykjanesi er ennfremur framleitt erfðabreytt bygg í gróðurhúsi sem er undirstaða snyrtivörulínu sem seld er um allan heim. Á Minni-Vatnsleysu er í dag rekið svínabú sem er sennilega eina landbúnaðarframleiðslufyrirtækið á skaganum.

Mikil flóra veitingastaða eru á Reykjanesi og byggja flestir á sjávarfangi sem sérstöðu. Sandgerði hefur getið af sér gott orð fyrir krabba- og skelfiskmatseðilinn, Grindavík býður meðal annars upp á fisk og heilsurétti og í Bláa lóninu er hægt að njóta matarins í umhverfi sem National Geographic tilnefndi sem eitt af undrum veraldar. Í Keflavík er að finna mismunadi veitingastaði allt frá fínni stöðum til „dinera“. Þar kemur til áhrifa frá bandaríska varnarliðinu sem var nágranni í um 55 ár.

Reykjanes  er hluti af Unesco Global Geoparks sem er afar áhugavert. Þar er áhersla á að gesturinn upplifi söguna, menninguna, landslagið, matinn og dýralíf í sátt við umhverfið og heimamenn. Verkefnið GEOfood er ætlað að vekja athygli á matvælaframleiðslu innan svæðisins og verður spennandi að fylgjast með framgangi þess.

Sjá nánar um matarupplifun fyrir gesti á Visit Reykjanes

SVÆÐISBUNDIN HRÁEFNI, MATARGERÐ OG MATARHEFÐIR