Margildi

Margildi er frumkvöðlafyrirtæki sem er með aðsetur í húsnæði Matís að Vínlandsleið og hefur þróað nýja einkaleyfisvarða vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullvinna lýsi til manneldis úr uppsjávartegundum á borð við loðnu, síld og makríl. Margildi hefur unnið að nýsköpun sinni í nokkur ár í samstarfi við fjölmarga aðila og þar á meðal Matís, með styrkjum meðal annars frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Uppbyggingarsjóðum.

Á dögunum kom síldarlýsi fyrirtækisins með vægu appelsínubragði á markað undir merkjum Fisherman sem einnig verður selt í verslunum í Eystrasaltsríkjunum. Áður hefur fyrirtækið meðal annars selt síldarlýsi til Bandaríkjanna og Noregs. Fisherman hefur á undanförnum árum byggt upp skemmtilega og öfluga ferðaþjónustu á Suðureyri og framleiðir nú meðal annars fiskrétti og ýmsar matvörur undir merki Fisherman.

Síldarlýsið frá Margildi er ríkt af Omega-3 fitusýrum, A-, D-, og E-vítamínum og hefur komið vel út í neytendaprófun vegna milds bragðs, sem og náttúrlegs stöðugleika. Síldarlýsið frá Margildi hlaut sumarið 2017 hin eftirsóttu iTQi „Superior Taste Award“ matvælagæðaverðlaun þar sem 135 alþjóðlegir meistarakokkar og matgæðingar voru sammála um að síldarlýsið væri góð matvara.