Móðir Jörð – Vallanesi
Móðir Jörð ehf. í Vallanesi á Fljótsdalshéraði er fyrirtæki í lífrænni ræktun á korni og grænmeti. Þar fer fram fullvinnsla hráefna og matvælaframleiðsla tilbúinna matvæla sem grundvallast á hráefni sem ræktað er á staðnum. Móðir Jörð er í eigu hjónanna Eymundar Magnússonar og Eyglóar Bjarkar Ólafsdóttur. Á jörðinni er einnig umfangsmikil skógrækt og þar hefur verið plantað fjölda trjáa og skjólbelta. Markmið framleiðslunnar er að rækta og nýta hráefni úr nánasta umhverfi staðarins, þróa bragð og rétti í takt við íslenska matvælahefð. Móðir Jörð er samnefnari fyrir hollustu og sælkeralínu sem grundvallast á íslensku korni, grænmeti og jurtum. Hreinleiki er lykilatriði í ræktun og framleiðslunni á Vallanesi og ekki er notast við tilbúinn áburð eða eiturefni, matvörur Móður Jarðar eru lausar við tilbúin hjálparefni, gervi- og litarefni. Manneldismarkmið eru eigendunum hugleikin og lögð er áhersla á kynningu á notkun byggs til manneldis ásamt því hvernig það er unnið og stöðug þróun er á réttum þar sem þetta úrvals heilkorn kemur við sögu.