Sandhóll – íslensk repjuolía og hafrar

Frá bænum Sandhóli í Meðallandi í Skaftárhreppi er nú komið í verslanir íslensk kaldpressuð extra virgin repjuolía ásamt íslensku haframjöli. Repjuolían er unnin úr nepju sem er káltegund náskyld repju. Repjufræið er pressað við lágt hitastig og olían er unnin úr fyrstu pressun sem þýðir að hún er fyrsta flokks og öll næringarefnin haldast í olíunni. Hún inniheldur mikið magn af omega fitusýrum (3 og 6) og er rík af E-vítamíni. Matís efnagreindi hafrana frá bænum og var niðurstaðan sú að þeir eru mjög svipaðir og danskir hafrar. Vegna þess hversu hægt útiræktaða kornið vex hérlendis verður afurðin bragðmeiri. Samhliða framleiðslunni er einnig rekið kúabú á bænum og eru ábúendur þar með 300 gripa fjós í byggingu undir eldisgripi.