Súrkál fyrir sælkera

Hjónin Dagný Hermannsdóttir og Ólafur Loftsson rækta útigrænmeti við Apavatn og notar Dagný hluta af uppskerunni til súrsunar og í súrkálsgerð. Fyrir stuttu komu fyrstu vörur hennar á markað undir vörumerkinu Súrkál fyrir sælkera. Dagný sýrir flestallt grænmeti og eru kál og rótargrænmeti uppistaða í framleiðslunni og notar hún nokkrar kryddtegundir með til að gefa misjafnt bragð. Dagný leggur áherslu á að nota íslenskt grænmeti enda segir hún að ferskt og hreint hráefni sé lykillinn að vel heppnuðu súrkáli.

Súrkál er sýrt með mjólkursýrugerjun en það er ævagömul náttúrleg leið til að geyma grænmeti. Mjólkursýrubakteríur eru náttúrlega til staðar í grænmeti og aðferðin gengur út á að skapa réttar aðstæður til að þær nái yfirhöndinni og til að koma af stað gerjun. Flestir kannast við súrkál en hægt er að sýra allt grænmeti með þessari aðferð og gera óendanlega margar útgáfur af ljúffengu meðlæti sem geymist fram að næstu uppskeru. Grænmetið verður auðmeltanlegra, vítamín og næringarefni varðveitast og aukast jafnvel. Að auki er mjólkursýrt grænmeti fullt af góðgerlum sem bæta og kæta þarmaflóruna.