Nálægð Vestfjarða við gjöful fiskimið og svo skortur á undirlendi til landbúnaðar hafa mótað hefðir og venjur þar. Það er svo ótrúleg staðreynd að frumkvöðullinn í ræktun matjurta á 18. öld, Björn Halldórsson í Sauðlauksdal hafi verið staðsettur þar er hann gerði sínar merkilegu tilraunir og skrifaði sín fræðslurit. Ef minjasafnið að Hnjóti í Örlygshöfn er heimsótt þá fæst tilfinning fyrir því hvernig lífsbaráttan var um aldir. Sjórinn var undirstaðan. Fiskur, selur og fugl voru lífsbjargirnar.
Súrsun, söltun og reyking
Látrabjarg, stærsta fuglabjarg Evrópu, með sínar milljónir sjófugla hefur verið matarkista um aldir. Snemmsumars var sigið í björg og eggjum safnað. Þá var fuglinn veiddur síðar um sumarið. Iðulega var bjargfuglinn saltaður jafnóðum í tunnur eftir að gert hafði verið að honum. Súrsun, söltun og reyking voru allt geymsluaðferðir sem nýttar voru.
Lundi og svartfugl voru þær tegundir sem mest voru nýttar. Í dag njótum við þess að borða fuglinn ferskan eða reyktan. Neysla kæstrar skötu var lengi vel bundin við Vestfirði og þar tíðkast að borða mörflot með. Skötustappa soðin í hangikjötssoði fyrir jólin var einnig vestfirskur siður og steinbítsroð hleypt í hangikjötssoði þótti mikið sælgæti. Í dag njóta margir Íslendingar þess að borða kæsta skötu á Þorláksmessu um land allt. Hákarlastappa, hanginn hvalur, hrognaystingur og magálar voru einnig á borðum vestfirskra íbúa. Þar þótti einnig vindhangið rafabelti, (lúða), mikill hátíðarmatur og borðað á nýársnótt og á öskudag með hörðum rykling eða freðýsu. Vestfirðingar settu einnig spón af súru út í kjötsúpuna sína en algengt var að setja bygg og síðar haframjöl og hrísgrjón út í kjötsúpu.
Flatbökur í stað diska
Vestfirðingar halda tryggð við þjóðlegt bakkelsi og víða má finna staði sem bjóða upp á slíkt. Hér á árum áður voru á Vestfjörðum bakaðar flatkökur fyrir jól sem voru um 25 sentímetra í þvermál og meira en einn sentímetri á þykkt. Þessar kökur voru notaðar í stað diska og var jólamaturinn skammtaður ofan á kökuna. Segja má að hér sé hinn fyrsti vísir að íslenskri flatböku. Margir halda því fram að bestu vöfflur í heimi fyrirfinnist á Vestfjörðum. Það verður ekki rengt hér.
Fiskeldi
Í dag er fiskeldi vaxandi grein. Vestfirska strandlengjan er þekkt fyrir skjólgóða firði, hreint vatn og næringaríkan sjó. Það gerir fjórðunginn að ákjósanlegum stað til að stunda fiskeldi bæði í sjó og á landi enda áratuga hefð fyrir fiskieldi á Vestfjörðum. Þar hefur verið stunduð bleikjueldi, laxeldi og regnbogasilungseldi. Laxfiskar á borð við bleikju, regnbogasilung og lax innihalda mikið magn af omega-3 fitusýrum sem hafa jákvæð áhrif á heilsu manna. Vestfirskur lax og silungur er seldur á íslenskum veitingarhúsum og matvörubú’um og þá oft sem reyktur, grafinn eða ferskur.
Sjá nánar um matarupplifun gesta á Visit Westfjords Iceland